
Robert Work, vara-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hélt til Noregs frá Íslandi í byrjun vikunnar og sat þriðjudaginn 8. september í Osló fyrsta fund sögunnar þar sem vara-varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna og Norðurlandanna komu saman. Á vefsíðunni defensenews.com er haft eftir samstarfsmönnum Works að fundurinn hafi gengið betur en þeir væntu.
Í fréttinni segir að fulltrúar Bandaríkjanna, Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafi setið fundinn sem boðað hafi verið til vegna ögrandi aðgerða rússneska hersins víða um heim þar á meðal á Eystrasalti. Í fundarhléi sagði Work við blaðamenn:
„Fundinn sitja bæði fulltrúar ríkja í NATO og utan NATO. Það sem sameinar okkur er áhugi á friði og stöðugleika á Eystrasalti og norðurslóðum. Samstarf Norðurlandanna í varnarmálum er einnig skapandi vettvangur ríkja utan og innan NATO til að lýsa eða ræða sameiginleg öryggisvandamál.“
Jan Salestrand, vara-varnarmálaráðherra Svíþjóðar, sagði: „Öllum er okkur ljóst að staða öryggismála í heiminum er flókin, sama má segja um stöðuna í Evrópu og á okkar svæði. Viðvera Bandaríkjamanna á okkar svæði skiptir miklu – og ég segi hún ræður úrslitum.“
Øystein Bø, vara-varnamálaráðherra Noregs, sagði fundinn mikilvægan áfanga. „Þetta er í fyrsta sinn sem við hittumst undir þessum formerkjum til að ræða um norræn öryggismál og leiðir til nánari samvinnu. Við teljum ekki að um beina ógn við öryggi okkar sé að ræða á norðurslóðum. Við sjáum hvað þar er á ferðinni. Við fylgjumst náið með því. Fram til þessa höfum við ekki séð neina beina ógn.“
Miðvikudaginn 9. september fór Work til Þrándheims þar sem hann skoðaði neðanjarðar-birgðageymslur sem notaðar voru í kalda stríðinu fyrir hergögn bandarískra landgönguliða sem senda átti á hættustundu til Noregs kæmi til átaka við Sovétmenn. Þar er enn mikið af hergögnum og áforma Bandaríkjamenn að nýta aðstæður í Noregi meira á næstunni til að þjálfa landgönguliða til aðgerða á norðurslóðum. Work ræddi við blaðamenn í Þrándheimi og sagði:
„Undanfarin 25 ár hafa Bandaríkjamenn, ráðamenn NATO og ESB reynt sameiginlega að stofna til samstarfs við Rússa í von um að þeir yrðu aðilar hins evrópska samfélags. Við höfum lagt okkur fram um að skapa frið, stöðugleika og hagsæld í þágu allra, Okkur kom því í opna skjöldu þegar Rússar sýndu yfirgang á síðasta ári bæði á Krím og í austurhluta Úkraínu. Við undruðumst hve langt Rússar gengu til að grafa undan stjór landsins.
Af þessum sökum hafa NATO-ríkin tekið höndum saman um stjórnmálalegar og efnahagslegar gagnaðgerðir og sagt: „Þessi framkoma er óviðunandi.“ Við viljum einnig tryggja að ekki verði um frekari sóknaraðgerðir að ræða.“