Home / Fréttir / Bandaríkjaher vill einkarekin gervihnatta-fjarskipti á Norður-Íshafi

Bandaríkjaher vill einkarekin gervihnatta-fjarskipti á Norður-Íshafi

space

Norður-herstjórn Bandaríkjanna sem heldur uppi öryggisgæslu á Norður-Íshafi undan strönd Norður-Ameríku fer fram á sérstaka 130 milljón dollara fjárveitingu á fjárlagaárinu 2021 til að gera tilraunir með gervihnattafjarskipti á Norðurskautssvæðinu með Starlink-kerfi á vegum SpaceX eða OneWeb-kerfi á vegum Airbus og OneWeb. Í þessu felst að setja upp jarðstöðvar til að ná sambandi við þessi lágfleygu fjarskiptakerfi sem mynduð eru af þúsundum fjöldaframleiddra lítilla gervitungla.

Sérfræðingar telja það aðeins eitt dæmi um hve litla áherslu Bandaríkjaher hefur áratugum saman lagt á norðurslóðir að þar skuli fjarskipti á vegum hersins í raun vera í molum. Þá er einnig vakin athygli á að í þessu samhengi hafi herinn áhuga á viðskiptum við einkafyrirtæki í stað þess að ráða sjálfur við lausn verkefnisins með eigin gervitunglum.

Þessi vandræði eiga ekki aðeins við um herinn heldur á sama við um bandarísku strandgæsluna. Hún er sögð halda úti gamaldags fjarskiptabúnaði í landstöðvum við Norður-Íshafið. Oft þurfi að gera út leiðangra til að brjóta ís eða moka snjó af stöðvunum til að unnt sé að hafa not af þeim. Innan bandarísku strandgæslunnar hafa menn því einnig áhuga á að þróa gervihnattarsamskipti með nýrri tækni.

Terrence O‘Shaughnessy, flughershöfðingi, yfirmaður bandarísku Norður-herstjórnarinnar, sat nýlega fyrir svörum hjá hermálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings. Þar lýsti hann norðurskautssvæðinu sem nýrri „framlínu heimavarna okkar“. Það væri algjört forgangsverkefni að tryggja „grunn-fjarskipti“ á þessum slóðum. Hann nefndi í því sambandi LEO-kerfin (e. low earth orbit satellites), það er Starlink eða One Web lausnir, til að „leysa vandann á skemmstum tíma“.

Hann benti á að Rússar hefðu markvisst hervæðst á norðurslóðum meðal annars með háþróuðum, langdrægum stýriflaugum, langdrægum sprengjuvélum og nýjum ratsjárstöðvum. Þeir hefðu lengt gamlar flugbrautir og lagt nýjar á fjölda norðlægra flugvalla. Rússar héldu úti stýriflaugastöð á Stjukotka-skaga handan Beringssund andspænis Alaska og þaðan hefði verið skotið flaugum í æfingaskyni, í fyrsta sinn árið 2019.

Þá yrðu Bandaríkjamenn að fjölga tækjum til að fylgjast með vaxandi kafbátaumsvifum Rússa og Kínverja í Norður-Íshafi.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …