Home / Fréttir / Bandaríkjaher styrkir sig enn frekar í Evrópu

Bandaríkjaher styrkir sig enn frekar í Evrópu

 

arm1stbctkoreainactivation

Embættismenn bandaríska sögðu miðvikudaginn 30. mars að frá og með febrúar 2017 yrði orrustusveit úr bandarísku bryndreka-stórfylki í Austur-Evrópu. Hún yrði hluti þess liðsafla sem sendur hefur verið til NATO-landa í austurhluta Evrópu til að auka þar öryggi vegna vaxandi yfirgangsstefnu Rússa. Þá verður allur búnaður stórfylkisins sendur á þessar slóðir í Evrópu. Fyrri áætlanir miðuðu við að sendar yrðu til skiptis herdeildir frá Bandaríkjunum til Evrópu og þær notuðu tæki sem eru þar í vopnageymslum.

Nýja áætlunin felur í sér að vopnageymslurnar verða tæmdar, gömlu tækin tekin til endurnýjunar og ný send í staðinn. Bandaríski herinn verður því búinn öflugri, nýrri vopnum. Um 4.500 hermenn eru í bryndreka-stórfylki auk tugi þungra faratækja, skriðdreka og annarra tækja.

Embættismennirnir sögðu að einnig yrðu sendur nýr fjarskiptabúnaður, tölvur og senditæki, til Evrópu til að tryggja góð samskipti milli stjórnstöðva og stórfylkisins.

Þegar varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna birti í febrúar sl. fjárlagatillögur sínar fyrir árið 2017 kom í ljós að gert er ráð fyrir 3,4 milljarða dollara fjárveitingu til að efla herafla og æfingar hans í Evrópu. Nú þegar halda Bandaríkjamenn að staðaldri úti tveimur stórfylkjum í Evrópu – svonefndu Stryker-stórfylki landhermanna og stórfylki flughersins. Þriðja stórfylkið verður nú með fasta viðveru í Evrópu.

Fjárveitingin til Bandaríkjahers í Evrópu fjórfaldast á árinu 2017 miðað við árið 2016 úr 780 milljónum dollara í 3,4 milljarða. Hluta af þessu fé verður varið til endurbóta í Keflavíkurstöðinni.

Heimild: AP-fréttastofan.

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …