Home / Fréttir / Bandaríkjaher ræðst á Sýrlandsher vegna efnavopnaárásar

Bandaríkjaher ræðst á Sýrlandsher vegna efnavopnaárásar

Stýriflaug skotið frá bandarísku herskipi.
Stýriflaug skotið frá bandarísku herskipi.

Bandaríkjamenn hafa í fyrsta sinn gert beina árás á her Bashars al-Assads Sýrlandsforseta. Það gerðist aðfaranótt föstudags 7. apríl þegar 59 Tomahawk-stýriflaugum var skotið af herskipum í Austur-Miðjarhafi á Al Shayrat-flugvöllinn í austurhluta Sýrlands. Stríðið í Sýrlandi hefur nú staðið í um sex ár.

Rússnesk stjórnvöld fordæmdu árásina að morgni föstudagsins og riftu samningi við Bandaríkjastjórn sem gerður var til að draga úr líkum á árekstri milli bandarískra og rússneskra flugvéla yfir Sýrlandi. Rússneska utanríkisráðuneytið óskaði eftir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kæmi tafarlaust saman til fundar eftir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði árásina brot á alþjóðalögum.

Bandaríkjastjórn greip til árásarinnar vegna þess að þriðjudaginn 4. apríl gerðu flugvélar Sýrlandsstjórnar efnavopnaárás á bæinn Khan Sheikhun í Idlib-héraði í Sýrlandi. Þar féllu 86 manns, þar á meðal um 30 börn. Talið er að beitt hafi verið taugagasinu sarin. Sagt er að sýrlensku orrustuvélarnar sem fóru yfir bæinn hafi komið frá Al Shayrat-flugstöðinni.

Áður en bandarísku stýriflaugunum var skotið á loft var send viðvörun til yfirstjórnar rússneska hersins í Sýrlandi um hvað í vændum væri. Rússneskar árásarþyrlur hafa bækistöð á Al Shayrat-vellinum en engin bandarísku flauganna hæfði rússnesk hergögn eða hermenn. Þar sem árásin var gerð að næturlagi og eftir viðvörun er talið að mannfall hafi orðið minna en ella meðal Sýrlendinga en fréttir bárust um að þrír hermenn og tveir almennir borgarar hafi týnt lífi.

Breska stjórnin sagði að stýriflaugaárásin væri „hæfilegt svar“ við „grimmdarlegi“ efnavopnaárás stjórnarhersins. Frakkar, Þjóðverjar Ísraelar, Sádar og Ástralir lýstu stuðningi við árás Bandaríkjahers. Tyrkir voru einnig jákvæðir vegna hennar. Eins og við mátti búast lýstu Íranir andstöðu sinni en með tiltölulega mildu orðalagi miðað við aðstæður, að sögn sérfróðra.

Að morgni föstudags 7. apríl sagði Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, á Twitter: „Gott að það dregur dilk á eftir sér að ráðast á konur, karla og börn. Bandaríkjamenn hafa sýnt afdráttarlaust að Assad hefnist fyrir grimmdarverk sín.“

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem sagði:

„Hvers kyns beiting efnavopna er óviðunandi, henni verður að svara og þeir sem bera ábyrgð á henni skulu svara til saka. NATO telur að beiting efnasvopna sé ógn við alþjóðlegan frið og öryggi.

NATO styður alla alþjóðlega viðleitni sem miðar að því að koma á friði og finna pólitíska lausn í Sýrlandi.“

Árásinni var að sögn bandaríska varnarmálaráðuneytisins beint gegn sýrlenskum orrustuflugvélum, flugskýlum, ratsjárstöðvum, skotbirgðageymslum, flugeldsneytisgeymum og loftvarnaflaugum. Sýrlenska stjórnin ræður yfir mörgum öðrum flugvöllum og með stuðningi Rússa býr hún enn yfir öflugum flugher.

Áður en árásin var gerð hafði Donald Trump Bandaríkjaforseti gefið til kynna að hann ætlaði ekki að blanda sér í átökin í Sýrlandi og sín vegna mætti Assad forseti sitja áfram.

Donald Trump var í Mar-a-Lago á Flórída á fundi með forseta Kína þegar hann sagði að árásin í Sýrlandi þjónaði „brýnum öryggishagsmunum Bandaríkjanna“. Bandaríkjamenn yrðu að hindra notkun banvænna efnavopna. Enginn efaðist um að her Sýrlands hefði beitt slíkum vopnum og þannig brotið gegn banni í alþjóðlegum efnavopnasamningi og gegn hvatningu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að efnavopnum yrði ekki beitt.  Um árabil hefði mistekist að fá Assad forseta til að haga sér á annan veg, „mistekist á mjög hörmulegan hátt“.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gaf til kynna að ekki yrði um fleiri stýriflaugaárásir Bandaríkjahers að ræða. „Við teljum að árásin hafi verið hæfileg,“ sagði hann.

Skjót ákvörðun Trumps um að gerð skyldi árás á sýrlenska herinn var tekin tæpu þremur og hálfu ári eftir að Barack Obama, þáv. Bandaríkjaforseti, hótaði stríðsaðgerðum þegar hundruð manna féllu í efnavopnaárás í útborg Damaskus.

Obama sagði að „rauð lína“ yrði dregin og bjó sig undir árás á her Assads en breytti síðan um stefnu. Hann var síðan sakaður um að orð hans og hótanir um „rauðar línur“ væru marklausar. Með því að hika hvetti hann andstæðinga Bandaríkjanna til dáða.

Obama samdi síðan við Rússa um að efnavopn Sýrlandsstjórnar yrðu fjarlægð eftir að fulltrúar hennar rituðu undir alþjóðasamninginn um bann við efnavopnum. Árið 2014 fullyrti eftirlitsnefnd með framkvæmd samningsins að efnavopn Sýrlandsstjórnar hefðu verið fjarlægð.

Síðan hefur sýrlenska ríkisstjórnin verið sökuð um að standa oftar en einu sinni að klór-árásum, en klór fellur ekki undir samkomulag Bandaríkjamanna og Rússa um að fjarlægja efnavopn. Beiting klórs er bönnuð samkvæmt alþjóðlega efnavopnasamningnum.

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …