Herafli Bandaríkjanna var til skamms tíma samsettur úr sex einingum. Þrjár einingar rekja upphaf sitt til Frelsisstríðs Bandaríkjanna (1775 – 1783) þ.e. landherinn, sjóherinn og landgönguliðið. Strandgæslan var stofnuð árið 1790 og árið 1947 var flugherinn klofinn frá hernum og gerður að sjálfstæðri einingu. Þá ber að nefna þjóðvarðliðið meðal þessara eininga en það er elst þeirra allra frá 1636.
Í desember í fyrra var sjöunda eining heraflans sett á laggirnar. Um er að ræða sveit sem á ensku kallast Space Force, Geimher, sem einnig má nefna Geimgæslu Bandaríkjanna. Sumir hentu gaman að þessari nýju einingu heraflans, ekki síst vegna þess að fæstir vissu hvað liðið ætti að fást við. Í nýlegu hefti breska stjörnufræðitímaritsins All about Space, sem fjallar að mestu um Hubble stjörnusjónaukann sem er þrjátíu ára, er grein um þetta nýja skref undir merkjum Bandaríkjahers.
Fram kemur í greininni að hugmyndin komi frá Donald Trump Bandaríkjaforseta sem setti hana fram árið 2018. Hann virðist ekki hafa verið búinn að ræða hana við samstarfsfólk sitt en það greip hana samt sem áður á lofti og í fyrra var henni hrundið í framkvæmd. Einingin verður reyndar ekki formlega aðskilin frá flughernum fyrr en í lok ársins.
Herstjórn Bandaríkjanna hefur lengi horft til himins en þar til í fyrra voru verkefni utan gufuhvolfs jarðar að mestu á forræði stofnunar sem á ensku nefnist United States Space Command sem er undirstofnun flughersins. Geimgæslan mun að einhverju leyti taka við verkefnum stofnunarinnar. Hlutverkið er þó enn sem komið er æði óljóst líkt og sjá má af upplýsingasíðu (e. Fact Sheet) sem Bandaríkjastjórn hefur sett á netið. Þar eru væntanleg verkefni úti í geimnum orðuð með almennum hætti
Samkvæmt All about Space er reiknað með að um fjögur höfuðverkefni verði að ræða. Í fyrsta lagi að halda utan um geimskot heraflans í framtíðinni. Má þar sérstaklega nefna X-37 geimskutlu hersins en mikil leynd hvílir yfir verkefnum hennar. Áætlanir eru um að breyta nöfnum á eldflaugaskotstöðvum flughersins undir nýrri yfirstjórn. Þannig verður stöð sem á ensku heitir Vandenberg Air Force Bace nefnd Vandenberg Space Force Base og Cape Canaveral Air Force Base verður Cape Canaveral Space Force Base. Bandaríska geimferðastofnunin (NASA) skýtur líka geimflaugum sínum frá Cape Canaveral. Ekki er búist við breytingum á samskiptum NASA og Bandaríkjahers. NASA er sjálfstæð stofnun en þó vinnur hún með hernaðaryfirvöldum að nokkrum verkefnum.
Þá eru verkefni utan gufuhvolfs jarðar. All about Space nefnir þrjú verkefni sem öll tengjast gervihnöttum með einum eða öðrum hætti. Það fyrsta snýst um umsjón með staðsetningarhnöttum Bandaríkjanna en kerfið nefnist á ensku Global Positioning System (GPS). Þá felst geimgæslan einnig í eftirliti með staðsetningu gervihnatta til að hindra að þeir rekist hver á annan. Rekstur njósnahnatta Bandaríkjastjórnar er mikilvægt verkefni en þeir eru búnir fullkomnum myndavélum til að fylgjast með ýmsu á jörðu niðri. Einn þáttur af þessu verkefni er að gæta þess að andstæðingar Bandaríkjanna ógni ekki öryggi hnattanna. Blaðamaður All about Space nefnir að fréttir hafi borist af því að í febrúar síðastliðnum hafi rússneskur njósnahnöttur elt bandarískan hnött af þeirri gerð, án efa til þess að reyna að afla sér upplýsinga um hann.
Þrátt fyrir að enska orðið Space Force geti gefið annað til kynna þá er hér ekki um geimher að ræða í þeim skilningi að vígtólum verði skotið út í geim vegna átaka utan gufuhvolfs jarðar enda vandséð hvernig hægt væri að efna til stríðs þar. Tæki mannkynið að leggja undir sig sólkerfið gæti þetta breyst! Þá mætti tala um geimher í orðsins fyllstu merkingu, einmitt þess vegna er nú einnig staldrað við orðið geimgæsla eins og áður er lýst.
Á næstu árum verður meginhlutverk yfirmanna nýju einingarinnar innan Bandaríkjahers að byggja upp eftirlitsstarfsemi sem hingað til hefur verið á hendi um 60 stofnanna innan hersins. Reiknað er með að einingin kosti bandaríska skattgreiðendur um tvo milljarða Bandaríkjadala næstu fimm árin og að um 15 þúsund manns verði ráðnir til hennar úr öðrum einingum Bandaríkjahers. Nú er starfsmaðurinn hins vegar aðeins einn, John Raymond, og gegnir hann starfi sem á ensku kallast Chief of Space Operations.
Þrátt fyrir að stofnun geimhers Bandaríkjanna snúist um lítið annað en að flytja starfsmenn heraflans úr einu starfi í annað með það fyrir augum að auka skilvirkni innan hans hafa margir gagnrýnt stofnun hans. Óttast þeir að með þessu skrefi sé verið að vígvæða himingeiminn. Þessar ákvarðanir kunna að eiga þátt í því ferli en á það hefur verið bent að aðrar þjóðir þ. á m. Rússar hafi nú þegar komið á fót sveitum sem gegna svipuðu hlutverki og nýja bandaríska einingin. Enginn getur því útilokað að stjörnustríð verði hluti af átökum framtíðarinnar.
Höfundur:
Kristinn Valdimarsson