
Í dagrenningu föstudaginn 3. janúar grandaði bandarískur dróni æðsta herforingja Írans þegar hann var á ferð í bíl við flugvöllinn í Bagdad í Írak. Íranir hafa hótað harkalegum gagnaðgerðum. Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf fyrirmæli um árásina.
Sérfræðingar telja að ráðamenn í Teheran grípi til annars en beinna átaka við Bandaríkjaher. Þess í stað færi Íranir sér í nyt að þeir hafa undirtökin í Írak, Sýrlandi og Líbanon fyrir utan ítök þeirra víðs vegar um Mið-Austurlönd.
Skotmark Bandaríkjahers var Qassem Soleimani hershöfðingi sem stóð næstur Ali Khamenei, æðsta ráðamanni Írans. Soleimani stjórnaði úrvalsher Írana, byltingarhernum, og almennt er talið að hann hafi skipulagt skuggaveldi Írana í Mið-Austurlöndum.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið sagði að Soleimani hefði verið drepinn vegna þess að hann lagði á ráðin um morð á bandarískum stjórnarerindrekum og hermönnum í Írak og annars staðar. Ráðuneytið sakaði Soleimani einnig um að hafa samþykkt árásir á bandaríska sendiráðið í Bagdad fyrr í vikunni.
Bandarískir þingmenn vissu ekki af árásinni fyrr en hún var um garð gengin. Joe Biden sem keppir að því að verða forsetaefni demókrata sagði að Trump hefði „kastað dínamíti í púðurtunnu“ en Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, benti á hættuna af „ögrandi og óhóflegum aðgerðum“ sem kynnu að leiða til „hættulegrar stigmögnunar“.
Repúblíkaninn Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður frá Suður-Karólínu, sagði: „Ég kann að meta huguð viðbrögð Trumps forseta gegn árás Írana. Til ríkisstjórnar Írans: viljið þið meira, fáið þið meira.“
Donald Trump var í fríi í golfklúbbi fyrirtækis síns í Palm Beach, Flórída, þegar árásin var gerð. Hann setti mynd af bandaríska fánanum á Twitter-síðu sína.
Bandaríkjamenn voru hvattir til að hverfa „tafarlaust“ frá Írak.
Abu Mahdi al-Muhandis, næstráðandi í bardagasveitum Írana í Írak, PMF, og fimm aðrir féllu í drónaárásinni. Íraskur embættismaður sagði árásina hafa verið gerða þegar Soleimani var á leið frá flugvellinum eftir að al-Muhandis og aðrir tóku á móti honum. Flugvél hans hefði komið frá Líbanon eða Sýrlandi. Líkamsleifar Soleimani þekktust af hring sem hann bar.