
Þess var minnst mánudaginn 4. apríl að 67 ár voru liðin frá því að stofnsáttmáli Atlantshafsbandalagsins (NATO) var undirritaður í Washington. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hitti Barack Obama Bandaríkjaforseta af þessu tilefni í Hvíta húsinu.
Í ávarpi sem forsetinn flutti að fundinum loknum sagði hann NATO „hornstein“ stefnu Bandaríkjanna í öryggismálum og mikilvægan bandamann í baráttunni við hryðjuverkamenn. Ummæli forsetans eru meðal annars skýrð sem óbeint svar við nýlegum fullyrðingum Donalds Trumps sem keppir að forsetaframboði fyrir flokk repúblíkana um að bandalagið sé úrelt.
Forsetinn bar lof á NATO fyrir framlag þess í baráttunni gegn Ríki íslams í Sýrlandi, fyrir samstarfið í Afganistan og fyrir aðstoð NATO vegna flóttamannavandans í suðurhluta Evrópu.
Obama nefndi ekki Trump á nafn og svaraði ekki spurningu blaðamanns um nýlega yfirlýsingu Trumps. Fréttamenn benda hins vegar á að orð forsetans séu allt önnur en þau sem Trump lét falla þegar hann sagði NATO ekki skipta neinu máli og dygði illa í baráttunni við hryðjuverkamenn. Trump hefur sagt að verði hann kjörinn Bandaríkjaforseti muni hann neyða aðildarríki NATO til auka fjárgreiðslur sínar til bandalagsins jafnvel þótt slík krafa kynni að ógna samstöðu innan NATO.
Í frétt AP-fréttastofunnar segir að forsetinn og framkvæmdastjóri NATO hafi báðir hafnað þessari lýsingu á bandalaginu. Stoltenberg sagði mikilvægi bandalagsins eins brýnt og jafnan áður.
„NATO hefur tekist að laga sig að hættulegri heimi,“ sagði framkvæmdastjórinn.
Obama lét þess getið að í fjárlagatillögum stjórnar sinnar fyrir árið 2017 væri gert ráð fyrir fjórföldun á fjárveitingum til Bandaríkjahers í Evrópu. Með því væri ætlunin að halda aftur af Rússum.