Home / Fréttir / Bandaríkjafloti ræðir hafnaraðstöðu í Færeyjum og á Grænlandi

Bandaríkjafloti ræðir hafnaraðstöðu í Færeyjum og á Grænlandi

Þessi mynd er tekin árið 2008 í norska kafbátastöðinni Olavsvern. Nú hefur hún verið opnuð aftur.
Þessi mynd er tekin árið 2008 í norsku kafbátastöðinni Olavsvern. Nú hefur hún verið opnuð aftur.

Bandaríkjamenn auka hernaðarleg umsvif sín á norðurslóðum og leita að öruggum höfnum fyrir herskip sín, segir í frétt danska blaðsins Jyllands-Posten föstudaginn 30. október, sum þeirra geti borið kjarnavopn. Segir blaðið að áhrifa stefnunnar muni gæta í danska konungsríkinu, á Grænlandi, í Færeyjum og Danmörku.

Í blaðinu er vitnað í Robert P. Burke, yfirmann bandaríska flotans

í Evrópu og Afríku, sem segir að norðurslóðastefna flotans sé að mótast. Þungamiðjan verði meiri viðvera flotans á þessum slóðum:

„Fyrst og fremst og mikilvægast er að bandaríski flotinn auki viðveru sína á norðurslóðum ekki af því að við viljum ögra heldur vegna þess að fælingarmáttur felst í viðverunni og þar með stuðlar hún að friði á svæðinu,“ segir Robert P. Burke.

Hann heimsótti danska varnarmálaráðuneytið þriðjudaginn 27. október og fór síðan til Færeyja, þá ætlar hann einnig að heimsækja Grænland. Tilgangurinn með ferðinni er meðal annars að hefja viðræður um hvar bandarísk herskip geti fengið aðstöðu þegar þau fjölga eftirlitsferðum sínum á norðurslóðum. Burke segir að ferðir herskipanna miði að því að tryggja frjálsar siglingar, halda Rússum í skefjum og halda Kínverjum alfarið frá svæðinu.

Bandaríkjamenn og Bretar efndu í maí 2020 til sameiginlegrar flotaæfingar á Barentshafi í fyrsta skipti í 30 ár. Þegar efnt var til æfingar þjóðanna að nýju í byrjun september var þar einnig norskt herskip og dönsk eftirlitsflugvél. Í október fór bandarískur tundurspillir í eftirlitsferð um Barentshaf.

Gunnar Holm-Jacobsen, ráðuneytisstjóri færeyska utanríkisráðuneytisins, segir að bandaríski flotaforinginn hafi rætt við Jenis av Rana utanríkisráðherra og Jørgen Niclasen fjármálaráðherra í Færeyjum. Eftir þessi samtöl hefjist viðræður á pólitískum vettvangi.

Í október í fyrra heimsótti bandaríski tundurspillirinn Donald Cook Runavik í Færeyjum. Var það í fyrsta sinn í 33 ár sem bandarískt herskip leggst að bryggju í eyjunum.

Robert P. Burke leggur áherslu á að bandaríski flotinn hafi ekki áhuga á eiginlegum flotastöðvum heldur vilji hann aðgang að höfnum sem skipin geti notað á ferðum sínum.

Í Jyllands-Posten er leitað álits hjá Søren Espersen, talsmanni Danska þjóðarflokksins (DF) í varnarmálum. Hann segir:

„Allt byrjar á sinn hátt og síðan gerist eitthvað meira og meira. Það verður forvitnilegt að vita hvað hervæðingin er mikil.“ Hann minnir á að það sé skylda danskra stjórnvalda að halda úti almennu eftirliti við Grænland og Færeyjar. „Ef við eigum ekki nógu mörg skip verðum við að eignast fleiri,“ segir hann en efast um að 1,5 milljarður dkr. sem sé að finna í fjárlagasamkomulaginu um varnarmál dugi.

Í blaðinu er einnig rætt við Sjurdur Skaale, á þinginu í Kaupmannahöfn fyrir Færeyjar, sem segir að auðvitað eigi að ræða við Bandaríkjamenn en þeir stjórni ekki alfarið ferðinni. Hann útilokar ekki að bandarísk herskip noti höfn í Færeyjum, það sé nauðsynlegt þegar Rússar séu eins „ágengir og þeir eru“.

Martin Lidegaard, talsmaður danska Radikala-flokksins í varnarmálum, væntir þess að viðræðum við Bandaríkjamenn ljúki um áramótin. Hann leggur áherslu á að spenna aukist ekki á norðurslóðum. Óski Bandaríkjamenn eftir hafnaraðstöðu er skoðun hans þessi:

„Þarna verða menn að rýna í smáaletrið – er þetta föst viðvera eða aðeins frekari mannvirkjagerð?“

Aaja Chemnitz Larsen, annar þingmaður Grænlendinga á þinginu í Kaupmannahöfn, segir að flokkur hennar, IA, sé andvígur hernaðarumsvifum:

„Það er mikilvægt að vera gagnrýnin þegar að því kemur að veita Bandaríkjamönnum meiri aðgang að Grænlandi.“

Anders Puck Nielsen, herfræðingur við danska Forsvarsakademiet – Varnarmálaháskólann, bendir að hægt og sígandi bæti Bandaríkjamenn flotaaðstöðu sína á norðurslóðum. Nú hafi til dæmis verið ákveðið að Olavsvern, flotastöðin inni í fjallshlíð skammt frá Tromsø, verði að nýju aðsetur kafbáta eftir að hafa verið lokuð þeim í 11 ár. Þetta sé meðal annars gert vegna þrýstings frá Bandaríkjamönnum.

Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, segir að hún eigi mjög góð samskipti við Bandaríkjamenn vegna öryggis á norðurslóðum.

„Mér finnst að því sé sýnd mikil virðing að Danir ráði ferðinni en þetta snertir einnig bandaríska öryggishagsmuni. Á milli okkar ríkir góður skilningur um að við höfum hvor sitt hlutverk en eigum að stuðla að gagnkvæmum stuðningi á svæðinu,“ segir hún.

Í Jyllands-Posten er vitnað til stefnu bandaríska flotans á norðurslóðum sem birt var í janúar 2019 þar sem lögð er sérstök áhersla á varnir í Beringssundi og í GIUK-N-hliðinu (hafsvæðunum frá Grænland um Ísland til Bretlands og Noregs) til að hindra skip úr Norðurflota Rússa í að komast út á N-Atlantshaf og þaðan að austurströnd Bandaríkjanna eða í Miðjarðarhaf. Þar segir að Bandaríkjaher viðhaldi fælingarstefnunni á Norðurslóðum með hefðbundnum vopnum og kjarnavopnum.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …