
Robert Burke, flotaforingi og yfirmaður bandaríska sjóhersins í Evrópu, segir að á vissan hátt sé áríðandi að Atlantshafsbandalagið styrki stöðu sína á norðurslóðum. Rússar njóti sterkrar stöðu á svæðinu án þess að tilgangur viðbúnaðar þeirra sé ljós.
Þetta kom fram á kynningarfundi í bandaríska sendiráðinu, þar sem Burke fór yfir ástæður Íslandsheimsóknar sinnar en bandaríski sjóherinn viðrar nú hugmyndir um aukna fjárfestingu hér á landi, sem myndi fjölga þjónustusvæðum fyrir flotann við Íslandsstrendur.
„Markmið okkar er að hafa traustar stoðir til þess að geta varið okkur,“ sagði hann en herinn lítur sérstaklega til Austurlands þar sem sá staður sé hentugri fyrir hernaðaraðgerðir en til dæmis höfuðborgarsvæðið, vegna nálægðar við svæðin þar sem rússneskir kafbátar athafna sig reglulega.
Burke sagði, eins og fram hefur komið, að málið væri á byrjunarstigi og ekki væri enn ljóst hve móttækileg íslensk stjórnvöld væru gagnvart samstarfinu.
„Ég vil ekki taka fram fyrir hendurnar á íslenskum stjórnvöldum. Við þurfum að virða þeirra óskir,“ sagði Burke þegar hann var inntur eftir frekari upplýsingum um hvaða umsvif hersins hann hefði í huga.
Þegar Burke var spurður hvort NATO væri að dragast aftur úr Rússum hvað varðar sýnileika á norðurslóðum sagði hann: „Ég myndi segja að núna værum við að reyna að fjölga valkostunum. Við höfum ekki sömu valkosti og við vildum gjarnan hafa – á þann hátt erum við eftir á.“
Vék Burke næst að því hvernig Rússar haga sínum aðbúnaði í sjóhernaði; ekki væri alls kostar ljóst í hvaða tilgangi sá aðbúnaður væri.
„Ef við lítum á hegðun þeirra og hvernig þeir byggja sig upp, þá virðist tilgangurinn vera frábrugðinn okkar tilgangi. Ég er ekki viss um hvað þeir hafa í huga en spurningin er hvað vakir fyrir þeim,“ sagði hann og bætti við að þeir hefðu gert tilkall til svæða, sem aðildarríki NATO hafa litið á sem alþjóðleg hafsvæði.
Lýsti hann því að rússnesk stjórnvöld gætu þannig krafist þess að menn hefðu leyfi frá Rússlandi til þess að fara um þessi svæði, sem flestar þjóðir myndu telja alþjóðleg svæði.
„Þeir hafa byggt upp herstöðvar á norðurslóðum með eldflaugavörnum sem hæglega væri hægt að nota til þess að krefjast leyfa frá þeim sem eiga leið um svæðið,“ sagði hann.
Þá hafi Rússar þróað vopnaða ísbrjóta. „Við viljum ekki stuðla að slíkri uppbyggingu. Við viljum hafnarþjónustu á vissum stöðum og vinna að lausnum sem henta einnig bandamönnum okkar, til dæmis stofna grundvöll fyrir viðskiptum þar sem bækistöðvarnar verða,“ sagði hann.