
Lloyd Austin hershöfðingi nýr varnarmálaráðherra Bandarikjanna í stjórn Joes Bidens segist hafa áhyggjur af síauknum hernaðarumsvifum Rússa á norðurslóðum, þá séu áform Kínverja þar einnig áhyggjuefni. Hann leggur jafnframt áherslu á að um langan aldur hafi Bandaríkjamenn og Rússar átt góð samskipti í norðri og vonar að svo verði áfram.
Þetta kom fram í hermálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings þriðjudaginn 19. janúar þegar Austin sat þar fyrir svörum. Öldungadeildin staðfesti tilnefningu hans með 93 atkv. gegn 2 föstudaginn 22. janúar.
Þrátt fyrir áralöng góð samskipti við Rússa á norðurslóðum sagði Austin að geopólitísk keppni setti æ meiri svip á þennan heimshluta ekki síst vegna hernaðarumsvifa Rússa. Sem ráðherra myndi hann leggja áherslu á samræmda og skilvirka stefnu gagnvart Rússum.
„Ég er jafnframt mjög áhyggjufullur yfir áformum Kínverja á svæðinu. Hljóti tilnefning mín staðfestingu mun ég meta stöðuna og eiga samráð við bandamenn og samstarfsþjóðir um strategíu, skipan herafla og tækjabúnað til að tryggja stöðugleika og opið Norður-Íshaf, samhliða því að verja Bandaríkin sjálf, efnahagslega hagsmuni okkar og fæla frá árás,“ sagði ráðherraefnið.
Þegar hann var spurður hvort núverandi hafnaraðstaða Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra á svæðinu dygði að hans mati til að tryggja varnarhagsmuni Bandaríkjanna á norðurslóðum svaraði Austin að hann hefði ekki enn farið nákvæmlega yfir stöðu Bandaríkjanna eða bandamanna þeirra og samstarfsþjóða í norðri. Það ætlaði hann að gera.
Heimild: High North News