Home / Fréttir / Bandaríkin: Um 93.000 skipverjar fastir um borð í skemmtiferðaskipum

Bandaríkin: Um 93.000 skipverjar fastir um borð í skemmtiferðaskipum

 

Strandgæslubátur við skemmtiferðaskip.
Strandgæslubátur við skemmtiferðaskip.

Bandaríska strandgæslan skýrði sunnudaginn 5. apríl frá því 93.000 skipverjar 114 skemmtiferðaskipa væru enn um borð í skipunum í bandarískum höfnum, nálægt þeim eða rétt við lögsögu Bandaríkjanna. Að stærstum hluta eru þetta ekki bandarískir ríkisborgarar en útgerðarfélög bera ábyrgð sem vinnuveitendur skipverjanna.

Samhliða því sem strandgæslan birti þessar tölur um þá sem enn eru um borð í skemmtiferðaskipum undir eftirliti hennar birti hún enn hærri tölur um fjölda þeirra farþega sem farið hefðu í land af skipunum. Um er að ræða meira en 120 skip og samtals hafa um 250.000 farþegar þeirra yfirgefið þau í bandarískum höfnum.

Í upphafi gagnaðgerða vegna COVID-19-faraldursins tilkynntu alþjóðlegu skipafélögin að skemmtiferðaskipum yrði lagt í 30 daga. Nú hafa mörg stærstu félögin aflýst öllum ferðum að minnsta kosti út apríl.

Sé litið til áhafna skipanna sem eru innan eða við bandaríska lögsögu eru 73 skemmtiferðaskip með samanlagt 53.000 skipverja við akkeri eða bryggju í bandarískum höfnum en 41 skip með 41.000 skipverja eru enn á sveimi í nágrenni Bandaríkjanna.

Strandgæslan segir að það sé endanlega á ábyrgð útgerðarfélaganna að tryggja öryggi og velferð áhafna sinna. Mánudaginn 6. apríl tilkynnti strandgæslan að þá um helgina hefði hún flutt í land skipverja af þremur skemmtiferðaskipum vegna COVID-19-einkenna. Skipin eru í nágrenni Miami og St. Petersburg á Flórída.

Í opinberri tilkynningu bandarísku strandgæslunnar frá fyrri viku segir að stjórnendur skipa sem sigla undir öðru flaggi en bandarísku verði að búa sig undir að sinna COVID-19-sjúklingum um borð í skipunum „um óákveðinn tíma“ þar sem aðrir COVID-19-sjúklingar muni fylla öll hjúkrunarrými í landi.

Telji læknir á vegum strandgæslunnar óhjákvæmilegt að flytja sjúkling úr skemmtiferðaskipi í land er ætlast til að útgerð skipsins annist flutninginn og tryggi legurými á sjúkrahúsi áður en flutningur sjúklingsins er heimilaður.

Alþjóðasamtök útgerðarfélaga skemmtiferðaskipa sögðu mánudaginn 6. apríl að þann dag væru sjö skip félaga í samtökunum með farþega á siglingu, það er á 2,5% skipa í eign félaga í samtökunum.

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …