
Heimildarmaður innan Hvíta hússins í Washington segir stefnt að því að auka útgjöld Bandaríkjanna til varnarmála um 54 milljarða dollara. Jafnframt verði dregið úr fjárhagslegri aðstoð erlendis og greiðslur minnkaðar til ýmissa verkefna á heimavelli.
Donald Trump Bandaríkjaforseti flutti mánudaginn 27. febrúar ræðu á fundi með ríkisstjórum í Hvíta húsinu. Þar sagði hann að fyrstu tillögur sínar í ríkisfjármálum mundu taka mið af almanna- og þjóðaröryggi samhliða því að minnka útgjöld sem mætti kenna við opinbera eyðslu.
Í nýja fjárlagafrumvarpinu verður að finna „sögulega hækkun til varnarmála til að endurreisa niðurníddan herafla [Bandaríkjanna] á tímum þegar við þörfnumst hans mest. Þessum útgjöldum til varnarmála verður mætt með sparnaði og hagræðingu í rekstri ríkisins,“ sagði hann og einnig:
„Við ætlum að ná meiri árangri með minni fjármunum og minnka ríkisumsvif og standa almenningi reikningsskil. Við getum fengið miklu meira fyrir fjármunina .“ Trump sagðist einnig ætla að beita sér fyrir endurbótum á gömlum innviðum Bandaríkjanna.
Ónafngreindur heimildarmaður í Hvíta húsinu staðfesti mánudaginn 27. febrúar að forsetinn vildi að útgjöld til varnarmála yrðu aukin um 54 milljarða dollara, það er um 10%.
Fjárlagatillögur forsetans á sviði varnarmála verða sendar formlega til Bandaríkjaþings í mars.