Home / Fréttir / Bandaríkin: Tólf rússneskir njósnarar ákærðir fyrir tölvuinnbrot kosningaárið 2016

Bandaríkin: Tólf rússneskir njósnarar ákærðir fyrir tölvuinnbrot kosningaárið 2016

 

Rod Rosenstein kynnir ákæruna.
Rod Rosenstein kynnir ákæruna.

Tólf rússneskir njósnarar hafa verið ákærðir fyrir að brjótast inn í tölvur demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum á árinu 2016 til að skaða Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrataflokksins, gegn frambjóðanda repúblíkana, Donald Trump.

Í ákærunni segir að Rússarnir 12 hafi stolið upplýsingum um 500.000 kjósendur með innbroti í tölvur Demókrataflokksins í forsetakosningabaráttunni árið 2016. Bandaríska dómsmálaráðuneytið skýrði frá ákærunni föstudaginn 13. júlí, tveimur dögum fyrir fund Donalds Trumps Bandaríkjaforseta með Vladimir Pútín Rússlandsforseta í Helskinki mánudaginn 16. júlí.

Rod Rosenstein, vara-dómsmálaráðherra, kynnti ákæruna sem er samin af Robert Mueller, sérstökum saksóknara, sem falið var að rannsaka hugsanlegt leynimakk milli kosningastjórnar Trumps og Rússa í kosningabaráttunni árið 2016.

Rússarnir eru einnig ákærðir fyrir að stela bréfum í vörslu Demókrataflokksins þar á meðal úr tölvum í eign kosningastjórnar Hillary Clinton sem voru birt fyrir kosningarnar 7. nóvember 2016.

Embættismaður í forsetaskrifstofu Rússlands í Kreml hefur hafnað ákæruatriðunum. Hann sagði blaðamönnum í Moskvu að Rússar hefðu ekki skipt sér af forsetakosningunum árið 2016.

Rosenstein sagði að hann hefði upplýst Trump um efni ákærunnar fyrr í vikunni.

Með ákærunni snýr Mueller sér í fyrsta sinn beint gegn opinberum rússneskum starfsmönnum vegna afskipta þeirra af bandarísku kosningunum. Sérstaki saksóknarinn hafði áður gefið út ákæru á hendur 13 Rússum og þremur rússneskum fyrirtækjum með ásökunum um skipulagri aðför í því skyni að hafa áhrif á úrslit kosninganna árið 2016.

Vegna ákærunnar hvöttu þingmenn demókrata Trump til að ganga hart að Pútín á Helsinki vegna afskipta Rússa af kosningunum.

Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeild þingsins, gekk  svo langt að krefjast þess að Trump frestaði fundi sínum með Pútín þar til Rússar sýndu skýrt og afdráttarlaust að þeir mundu ekki skipta sér framar af bandarískum kosningum.

Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni, hvatti Trump til að taka loforð af Pútín um að hann mundi ekki blanda sér í bandarískar kosningar að nýju. „Að láta hjá líða að taka á Pútín fæli í sér djúptæk svik við stjórnarskrána og lýðræðið,“ sagði hún.

Donald Trump lítur á þetta mál sem flokkspólitískar árásir á sig og segir að ákæran nú auðveldi ekki fund sinn með Pútín.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …