
Áhöfn bandaríska kjarnorkuknúna árásar-kafbátarins North Dakota af Virginu-gerð sendi frá sér og náði aftur um borð neðansjávar-dróna segir í frétt AP-fréttastofunnar föstudaginn 24. júlí.
Frétt um þetta birtist skömmu eftir að kafbáturinn sneri að nýju til Bandaríkjanna eftir næstum tveggja mánaða úthald í Miðjarðarhafi. Áhöfn kafbátsins hafði það sérstaka hlutverk að gera tilraunir sem fólust í að sleppa og ná aftur í kafi ómönnuðu neðansjávarfarartæki.
„Þeir héldu að okkur tækist þetta. Við fórum af stað og sönnuðum það,“ sagði Douglas Gordon, skipherra kafbátsins, við AP.
Skipherrann vildi ekki skýra frá öðru varðandi tilraunina en því að drónanum hefði verið skotið úr vatnsþéttu færanlegu hylki sem festa má við kafbátinn og auðveldar að farið sé úr kafbátnum eða komið um borð í hann í kafi.
Hann lagði áherslu á að með því að nota dróna gæti áhöfn kafbátsins í raun sinnt tveimur ólíkum verkefnum samtímis.
Dróninn um borð í North Dakota var af gerðinni REMUS 600. Óljóst er hvort honum var fjarstýrt af einum úr áhöfninni eða hann búinn sjálfstýringu. Útibú norska fyrirtækisins Kongsberg í Bandaríkjunum, Hydroid, smíðar REMUS 600. Dróninn er endurgerð REMUS 100 sem Kongsberg smíðar.
Franz-Stefan Gady, aðstoðarritstjóri bandaríska blaðsins The Diplomat, segir í tilefni af frétt AP um neðansjávar-drónann að það sé tæknilega mjög erfitt að stýra slíkum tækjum þar sem mjög erfitt sé að koma boðum til þeirra, hljóðbylgjur berist mun hægar í hafinu en venjulegar útvarpsbylgjur. Þess vegna sé óhjákvæmilegt að neðansjávar-drónar starfi næstum alveg án nokkurra afskipta annarra.
Franz-Stefan Gady segir að bandaríski flotinn geri nú tilraunir með og vinni að þróun nokkuð margra neðansjávar-dróna og veitt sé töluverðu fé til verkefna á þessu sviði í fjárlögum bandarískra varnarmálaráðuneytisins fyrir árið 2016.