Bandarískir sérfræðingar telja að rússneskir njósnarar hafi aukið umsvif sín´í Bandaríkjunum þrátt fyrir að unnið sé að rannsókn á afskiptum þeirra af bandarísku forsetakosningunum árið 2016. CNN sagði fimmtudaginn 6. júlí að þetta mætti rekja til þess að bandarísk yfirvöld hefðu ekki gripið til skipulegra gagnráðstafana vegna þess sem Rússar eru grunaðir um að hafa gert í fyrra.
Steve Hall, fyrrv. aðgerðarstjóri hjá CIA, bandarísku leyniþjónustunni, sagði við CNN að Rússar kynnu einnig að afla sér meiri upplýsingar um Trump-stjórnina.
„Í hvert sinn sem samband ríkjanna versnar eykst mikilvægi leynilegrar upplýsingaöflunar og njósna þegar stjórnvöld reyna að leggja mat á áform hvor annars,“ sagði Hall.
Embættismenn sem ræddu við fréttamenn CNN sögðu að talið væri að Rússar héldu nú úti tæplega 150 leynilegum fulltrúum í Bandaríkjunum og séu að fylla skörð sem mynduðust þegar Obama-stjórnin rak 35 rússneska stjórnarerindreka í desember 2016 vegna gruns um rússneska íhlutun í forsetakosningarnar.
Í sumum tilvikum hafa Rússar sótt um störf á stöðum þar sem finna má viðkvæmar upplýsingar og auðvelda því njósnir. Þá er einnig talið að Rússar leiti eftir samskiptum við fólk í Bandaríkjunum sem hefur aðgang að viðkvæmum upplýsingum.
Bandarískar leyniþjónustustofnanir telja að Vladimír Pútin Rússlandsforseti hafi sjálfur gefið fyrirmæli um tölvuhernað til að aðstoða Trump í forsetakosningunum 2016 gegn Hillary Clinton.
Trump hefur hvað eftir annað hafnað fullyrðingum í þessa veru.