Home / Fréttir / Bandaríkin: Rex Tillerson rekinn Mike Pompeo nýr utanríkisráðherra

Bandaríkin: Rex Tillerson rekinn Mike Pompeo nýr utanríkisráðherra

Mike Pompeo
Mike Pompeo

Mánuðum saman hefur verið orðrómur um að Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, yrði ekki langlífur í embætti. Í færslu á Twitter snemma morguns í Washington tilkynnti Donald Trump forseti að Tillerson væri settur af og í stað hans yrði Mike Pompeo, forstjóra CIA, utanríkisráðherra. 

Rex Tillerson hefur verið á ferðalagi um Afríku. Hann vissi ekki að hann hefði verið rekinn þegar Trump birti tilkynningu sína. 

„Ég er sannfærður um að [Pompeo] sé rétti maðurinn í starfið á þessum viðkvæma punkti,“ sagði Trump í yfirlýsingu. „Hann mun vinna áfram að framkvæmd áætlunar okkar um að endurreisa stöðu Bandaríkjanna í heiminum, styrkja bandalög okkar, standa gegn andstæðingum okkar og vinna að því að Kóreuskagi verði kjarnorkuvopnalaus.“ 

Í yfirlýsingu sinni minntist Trump ekki á Tillerson en þeir hafa ekki verið samstiga í ýmsum málum, til dæmis ekki um afstöðuna til Norður-Kóreu. Þegar Tillerson sagði á liðnu ári að auðvitað yrði að ræða við N-Kóreumenn þótt þeir sýndu kjarnorkumátt sinn spurði Trump hvers vegna Tillerson sneri sér ekki að einhverju sem skipti meira máli.  

Í orðaskiptum við fréttamenn á hlaði Hvíta hússins þriðjudaginn 13. mars sagði Trump að þeir Tillerson hefðu ekki alltaf verið sammála um allt, til dæmis ekki afstöðuna til samningsins um kjarnorkumál við Írana. 

Pompeo var fulltrúadeildarþingmaður frá Kansas-ríki áður en Trump skipaði hann forstjóra CIA. Gina Haspel, vara-forstjóri CIA, verður nú forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar, fyrst kvenna. Hún hefur starfað 30 ár hjá CIA. Öldungadeild Bandaríkjaþings verður að staðfesta skipun þeirra í nýju embættin. 

Tilkynningin um brottrekstur Tillersons var birt daginn eftir að hann sakaði Rússa um morðtilraun í Salisbury á Suður-Englandi. Nokkrum klukkustundum áður höfðu embættismenn Trumps neitað að segja nokkuð um málið. 

Fimmtudaginn 8. mars sagði Tillerson að það væri ótímabært fyrir Trump að ræða við Kim Jong-un, leiðtoga N-Kóreu. Að kvöldi þess dags sagði Trump að hann ætlaði að hitta Kim í maí til að ræða um kjarnorkuvopn Norður-Kóreu. 

Tillerson hefur einnig lýst andstöðu við ákvörðun Trumps um að leggja tolla á stál og ál. 

Óstaðfestar fréttir bárust um það í fyrra að Tillerson hefði kallað Trump „hálfvita“ eftir fund í þjóðaröryggisráðinu. Í október 2017 sá Tillerson sig knúinn til að boða til blaðamannafundar til að fullvissa fjölmiðla og starfsmenn utanríkisráðuneytisins um að hann væri ekki að hætta sem ráðherra. Hann dró ummælin um Trump sem „hálfvita“ aldrei til baka. 

Niðurstaða fréttaskýrenda er að Trump hafi ekki sætt sig við Tillerson af því að hann vilji ekki aðra en já-menn í ríkisstjórn sinni. 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …