Home / Fréttir / Bandaríkin: Öllum pólitískt skipuðum sendiherrum ber undantekningarlaust að hætta 20. janúar

Bandaríkin: Öllum pólitískt skipuðum sendiherrum ber undantekningarlaust að hætta 20. janúar

 

Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Hann var settur í embætti fyrir tveimur árum 8. janúar 2015 og hættir nú.
Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Hann var settur í embætti fyrir tveimur árum 8. janúar 2015 og hættir nú.

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur gefið fyrirmæli um að allir sendiherrar Bandaríkjanna sem eru pólitískt skipaðir skuli yfirgefa stöður sínar erlendis  20. janúar 2017 þegar Trump verður settur í forsetaembættið. Frá þessu var skýrt í The New York Times (NYT) fimmtudaginn 5. janúar. Segir blaðið þessa ákvörðun brjóta í bága við áratugalöng fordæmi þar sem sendiherrar í þessari stöðu hafa fengið umþóttunartíma við forsetaskipti. Ákvörðunin nær til Robert C. Barbers, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Hann var settur í embætti sitt fyrir réttum tveimur árum, 8. janúar 2015. Hafði þá enginn bandarískur sendiherra verið hér í nokkur misseri.

Í NYT segir að bandaríska utanríkisráðuneytið hafi 23. desember sent boð til sendiherra um  uppsögn þeirra „án undantekningar“ fyrir 20. janúar 2016. Ákvörðunin kunni að leiða til þess að sendiherralaust verði í mörgum mikilvægum bandalagsríkjum Bandaríkjanna eins og Þýskalandi, Kanada og Bretlandi í nokkra mánuði á meðan öldungadeild þingsins staðfestir skipun þeirra sem forsetinn velur.

Bent er á að oft hafi það gerst að einstakir sendiherrar hafi fengið að gegna embætti sínu vikur eða mánuði fram yfir embættistökudag forsetans, til dæmis til að börn þeirra geti lokið skólagöngu. Trump heimilar ekki neinar slíkar undanþágur fyrir þá sendiherra sem Obama hefur skipað pólitískt, það er þeir koma ekki úr röðum starfsmanna utanríkisþjónustunnar heldur vegna þjónustu þeirra eða fjárhagslegs stuðnings við Demókrataflokkinn eða forsetann persónulega.

Starfsmaður Trumps sagði við NYT að ákvörðunin væri ekki tekin af illum huga í garð neins heldur aðeins á þeim grunni að þeir sem Obama hefði skipað til starfa erlendis færu úr störfum sínum á sama tíma og þúsundir annarra pólitískra aðstoðarmanna í Hvíta húsinu og öðrum alríkisstofnmunum. Þetta ætti ekki að koma sendiherrunum á óvart.

Í NYT eru rakin dæmi um sendiherra sem glíma við að leysa málefni fjölskyldna sinna vegna þessarar tafarlausu brottfarar, snýst vandinn einkum um skólagöngu barna sendiherranna. Má greina í svörum sumra viðmælenda blaðsins að þeir telji að í ákvörðun Trumps felist að minnsta kosti vottur af óvild í sinn garð.

Haft er eftir W. Robert Pearson, fyrrverandi sendiherra í Tyrklandi og núverandi fræðimanni við Mið-Austurlandastofnunina í Washington, að ákvörðunin sé „mjög sérkennileg“ og hún kunni að grafa undan bandarískum hagsmunum og boða bandamönnum Bandaríkjanna að skjót umskipti verði í samskiptum stjórnar Trumps við þá. Pearson sagði að þetta væri „einmitt mjög skýrt merki um“ að slík umskipti yrðu.

Þá segir að í kveðjuboði sem Obama-hjónin hafi haldið í Hvíta húsinu miðvikudaginn 4. janúar hafi sendiherrar skipst á orðum um óþægindin af slíkum skilyrðislausum brottflutningi. Sumir hafi undrast að hann sé ákveðinn af forseta sem eigi eiginkonu, Melaniu, sem hafi kosið flytja ekki í Hvíta húsið heldur búa áfram í New York svo að Barron, 10 ára sonur forsetahjónanna, þurfi ekki að skipta um skóla á miðju ári.

Daginn eftir að úrslit kosninganna 8. nóvember lágu fyrir tilkynnti utanríkisráðuneytið pólitískt skipuðum sendiherrum bréflega að þeir ættu að leggja inn uppsagnarbréf sem tæki gildi 20. janúar 2017.  Þeir sem óskuðu eftir undanþágu skyldu tilgreina ósk sína og rökstyðja hana.

Bent er á áð Colin L. Powell hafi sýnt séróskum sendiherra og sendiráðsmanna mikinn skilning þegar hann gegndi embætti utanríkisráðherra. Hann hefði sem herforingi búið víða um heim og vissi að við flutning úr einum stað til annars skipti máli að njóta sveigjanleika.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …