Home / Fréttir / Bandaríkin: Meirihlutinn vill ákæruferli gegn Trump

Bandaríkin: Meirihlutinn vill ákæruferli gegn Trump

 

Donald Trump
Donald Trump

Ný skoðanakönnun á vegum bandarísku CBS-sjónvarpsstöðvarinnar sýnir að meirihluti Bandaríkjamanna styður ákvörðunina í fulltrúadeild þingsins um að hefja undirbúning ákæru á hendur Donald Trump forseta.

Skoðanir almennings á málshöfðuninni hafa sveiflast undanfarna daga eftir því sem fréttir hafa borist af Úkraínu-hneyksli Trumps en þetta er þriðja stórkönnunin sem sýnir að meirihlutinn hallast að afstöðu demókrata, andstæðinga Trumps í fulltrúadeildinni. Í þessari könnun sem birtist sunnudaginn 29. september kemur þó í fyrsta sinn fram skýr meirihluti til stuðnings ákærumeðferðinni.

Alls voru 2.059 íbúar Bandaríkjanna spurðir dagana 26. og 27. september, vikmörk eru 2,3%. Alls sögðu 55% aðspurðra að þeir styddu ákæruferlið en 45% voru andvígir.

Eftir stjórnmálaflokkum:

Demókratar: 87% með, 13% á móti.

Repúblíkanar: 23% með, 77% á móti.

Utan flokka: 49% með, 51% á móti.

Þegar spurt var hvort ákæra ætti forsetann sögðu 42% já en 36% nei, 22% töldu of snemmt að taka afstöðu.

Þegar spurt var hvort rannsaka ætti óstaðfestar spillingarásakanir á hendur Joe Biden sögðu 43% já, 28% nei en 29% töldu of snemmt að taka afstöðu.

Þá sögðu 63% aðspurðra það „alvarlegt“ vandamál að Trump hefði beðið Úkraínumenn að rannsaka Biden.

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …