
Ný skoðanakönnun á vegum bandarísku CBS-sjónvarpsstöðvarinnar sýnir að meirihluti Bandaríkjamanna styður ákvörðunina í fulltrúadeild þingsins um að hefja undirbúning ákæru á hendur Donald Trump forseta.
Skoðanir almennings á málshöfðuninni hafa sveiflast undanfarna daga eftir því sem fréttir hafa borist af Úkraínu-hneyksli Trumps en þetta er þriðja stórkönnunin sem sýnir að meirihlutinn hallast að afstöðu demókrata, andstæðinga Trumps í fulltrúadeildinni. Í þessari könnun sem birtist sunnudaginn 29. september kemur þó í fyrsta sinn fram skýr meirihluti til stuðnings ákærumeðferðinni.
Alls voru 2.059 íbúar Bandaríkjanna spurðir dagana 26. og 27. september, vikmörk eru 2,3%. Alls sögðu 55% aðspurðra að þeir styddu ákæruferlið en 45% voru andvígir.
Eftir stjórnmálaflokkum:
Demókratar: 87% með, 13% á móti.
Repúblíkanar: 23% með, 77% á móti.
Utan flokka: 49% með, 51% á móti.
Þegar spurt var hvort ákæra ætti forsetann sögðu 42% já en 36% nei, 22% töldu of snemmt að taka afstöðu.
Þegar spurt var hvort rannsaka ætti óstaðfestar spillingarásakanir á hendur Joe Biden sögðu 43% já, 28% nei en 29% töldu of snemmt að taka afstöðu.
Þá sögðu 63% aðspurðra það „alvarlegt“ vandamál að Trump hefði beðið Úkraínumenn að rannsaka Biden.