Home / Fréttir / Bandaríkin: Hitnar enn undir Sessions dómsmálaráðherra

Bandaríkin: Hitnar enn undir Sessions dómsmálaráðherra

 

Jeff Sessions
Jeff Sessions

Rússneski sendiherrann í Washington sagði yfirmönnum sínum í Moskvu að hann hefði rætt um málefni tengd bandarísku forsetakosningabaráttunni, þar á meðal stefnumál sem snertu stjórnvöld í Moskvu, við Jeff Sessions, núverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Sessions hefur haldið öðru fram opinberlega.

Frétt um þetta birtist á vefsíðu The Washington Post (WP) föstudaginn 21. júlí og var hún höfð eftir núverandi og fyrrverandi bandarískum embættismönnum.

Njósnastofnanir Bandaríkjanna fylgdust með efni frásagna sem Sergeij Kisljak, sendiherra Rússa í Wshington, sendi til Moskvu um tvö samtöl sín við Jeff Sessions á þeim tíma þegar hann var einn af helstu ráðgjöfum forsetaframbjóðandans Donalds Trumps á árinu 2016. Stofnanirnar hlera fjarskipti háttsettra rússneskra embættismanna innan Bandaríkjanna og í Rússlandi.

Í fyrstu lét Sessions undir höfuð leggjast að segja frá samskiptum sínum við Kisljak og síðan sagði hann að samtöl þeirra hefðu ekki snúist um kosningabaráttu Trumps.

Fyrir þingnefnd fór Sessions með „villandi“ upplýsingar sem væru í „andstöðu við aðra vitneskju“ sagði bandarískur embættismaður.  Fyrrverandi embættismaður sagði að leynileg gögn bentu til þess að Sessions og Kisljak hefðu átt „efnislegar“ viðræður um ýmis mál þar á meðal afstöðu Trumps til málefna sem snerta Rússa og væntanlega afstöðu Trumps til Rússa næði hann kjöri.

Sessions hefur oftar en einu sinni sagt að hann hafi aldrei rætt málefni tengd kosningabaráttunni við rússneska embættismenn og hann hafi aðeins hitt Kisljak til að sinna skyldum sínum sem öldungadeildarþingmaður.

Þegar Sessions var skipaður dómsmálaráðherra lýsti hann sig vanhæfan til að hafa afskipti af rannsókn alríkislögreglunnar, FBI, á hugsanlegum afskiptum Rússa af kosningabaráttunni eða hugsanlegum tengslum þeirra við kosningastjórn Trumps.

Þessar upplýsingar um að Sessions hafi ekki sagt rétt frá efni samtala sinna við rússneska sendiherrann koma fram á viðkvæmum tíma fyrir hann sem dómsmálaráðherra.

Í vikunni sagði Trump í samtali við The New York Times að hann sætti sig illa við að Sessions hefði lýst sig vanhæfan varðandi Rússa-rannsóknina og gaf til kynna að þess vegna hefði hann frekar átt að skipa annan sem dómsmálaráðherra. Trump fann einnig að því að Sessions hefði gefið „léleg svör“ þegar hann svaraði spurningum þingmanna vegna tilnefningar sinnar í ráðherraembættið.

Í WP segir að hafa verði í huga að þessar upplýsingar um misræmi í frásögnum Sessions og rússneska sendiherrans sé að finna í frásögnum sendiherrans til yfirboðara sinna og hann kunni að hafa fært frásagnirnar í villandi búning. Það sé ekki óþekkt að sendimenn grípi til þeirra ráða að færa í stílinn sér í hag í von um að vinna sig í álit hjá ráðamönnum heima í höfuðborginni.

Þegar WP bar þetta mál undir Söruh Isgur, upplýsingafulltrúa dómsmálaráðuneytisins, sagðist hún ekki geta sagt neitt um áreiðanleika þess sem kæmi frá nafnlausum heimildarmönnum sem vitnuðu í gögn sem enginn hefði fengið að sjá til að staðfesta að þau væru í raun fyrir hendi. Þá áréttaði hún enn einu sinni að Sessions ræddi ekki þátt sinn í kosningabaráttunni.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …