
Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti samhljóða fimmtudaginn 16. ágúst að árétta „lífsnauðsynlegt hlutverk frjálsra fjölmiðla“.
Álytkun þingmannanna siglir í kjölfar ákvörðunar ritstjóra blaða um öll Bandaríkin, staðarblaða og blaða sem ná til landsins alls, um að birta forystugreinar sem andsvar við fullyrðingu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að fjölmiðlar séu „óvinir fólksins“.
Brian Schatz, öldungadeildarþinmaður demókrata frá Hawaii, flutti tillöguna en þar er því slegið föstu að fjölmiðlar séu „ekki óvinir fólksins“.
Í ályktuninni segir að fjölmiðlar gegni lífsnauðsynlegu hlutverki til að fræða kjósendur, leita sannleikans, veita stjórnvöldum aðhald, ýta undir umræður og skoðanaskipti meðal almennings og almennt leggja rækt við grunnþætti lýðræðis og frelsis sem séu Bandaríkjamönnum kærir.
Í ályktuninni eru árásir á frjálsa fjölmiðla fordæmdar og sagt að það ógni lýðræðisstofnunum Bandaríkjanna að grafa skipulega undan trúverðugleika fjölmiðla.
Frumkvæðið að þessu andsvari fjölmiðlanna kom frá ritstjórn The Boston Globe sem í fyrri viku sendi orðsendingu til nokkurra tuga annarra blaða um öll Bandaríkin um að þau gripu til sameiginlegs átaks gegn fullyrðingum Trumps um „falsfréttir“ og að fjölmiðlar séu „óvinir fólksins“.
Vegna aðgerða blaðanna setti Donald Trump á Twitter:
„Ekkert kysi ég frekar fyrir land okkar en sannarlegt FRELSI FJÖLMIÐLA. Staðreynd er að fjölmiðlum er FRJÁLST að skrifa og segja það sem þeim sýnist en mikið af því sem þeir segja eru FALSKAR FRÉTTIR, þjónar flokkspólitískum hagsmunum eða er beinlínis birt til að særa fólk. HEIÐARLEIKI SIGRAR!“