Home / Fréttir / Bandaríkin: Demókratar saka Rússa um að draga taum Trumps með þjófnaði á tölvubréfum

Bandaríkin: Demókratar saka Rússa um að draga taum Trumps með þjófnaði á tölvubréfum

RUSSIA-UKRAINE-BRITAIN-NETHERLANDS-ENERGY-OIL-CRISIS-SANCTIONS-E

Í The New York Times (NYT) er sagt frá því mánudaginn 25. júlí að meðal sérfæðinga sem glíma við töluvárásir, fjalla um Rússlandsmál og forystumanna bandaríska Demókrataflokksins hafi vaknað grunsemdir um að tölvuárásarmenn undir handarjaðri Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta blandi sér í bandarísku forsetakosningabaráttuna.

Menn hafi fram til föstudags 22. júlí pískrað um það í hornum að Rússar kynnu leynilega að draga taum Donalds Trumps, frambjóðanda repúblíkana, í kosningabaráttunni. Umræðan hafi hins vegar tekið á sig nýjan svip þennan sama föstudag þegar fréttir bárust um 20.000 stolin tölvubréf úr netþjónum yfirstjórnar Demókrataflokksins.

Fyrst birti töluvhakkari bréfin, síðan birtust þau hjá WikiLeaks. Í þeim kemur fram að yfirstjórn demókrata hafi haldið með Hillary Clinton gegn Bernie Sanders, helsta keppinauti hennar. Birting bréfanna leiddi til þess að Debbie Wasserman Schultz, formaður Demókrataflokksins, sagði af sér daginn áður en flokksþing demókrata hófst mánudaginn 25. júlí í Fíladelfíu.

Í NYT segir að mjög erfitt sé að sanna hvaðan tölvuárás sé gerð. Sérfræðingar hafi hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að tvær rússneskar njósnastofnanir hafi sótt að netþjónum flokkstjórnar demókrata. Þetta séu sömu aðilar og staðið hafi að tölvuárás Rússa á Hvíta húsið, bandaríska utanríkisráðuneytið og herráð Bandaríkjanna í fyrra. Þá bendi „metadata“ í tölvubréfunum sem hafa verið birt til þess að þau hafi farið í gegnum rússneskar tölvur. Þótt hakkari hafi sagt að hann hafi gefið töluvbréfin til WikiLeaks liggi rússnesku njósnastofnanirnar undir grun. Menn geti síðan velt fyrir sér hvort Pútín hafi gefið fyrirmæli um tölvuárásina eða undirsátar hans hafi gert þær að eigin frumkvæði.

Robby Mook, kosningastjóri Hillary Clinton, sagði að morgni sunnudags 24. júlí í ABC-sjónvarpsþætti að Rússar hefðu lekið tölvubréfunum til að aðstoða Donald Trump. Hann taldi einnig að það væri í hag Rússum að styðja Trump. Hann hefði sagt í viðtali við NYT fyrir nokkrum dögum að hann kynni ekki að leggja NATO-ríkjum lið réðust Rússar á þau – nema hann hefði verið fullvissaður um að viðkomandi ríki hefðu lagt sitt af mörkum til NATO.

NYT segir að þessi ásökun Mooks sé einstök, í kalda stríðinu væri erfitt að finna dæmi um að í kosningabaráttu væri frambjóðandi sakaður um að ganga leynilegra erinda helsta andstæðings Bandaríkjanna. Nú hafi ásökun um þetta orðið hluti af kosningabaráttu Hillary Clinton í því skyni að lýsa Trump ekki aðeins sem einangrunarsinna heldur veikgeðja gagnvart Rússum ef þeir beittu herafla sínum gegn Litháen, Lettlandi og Eistlandi.

Donald Trump Jr., sonur Trumps forsetaframbjóðanda, svaraði þessum ásökunum demókrata af hörku og sakaði þá um rógsherferð. „Mér finnst þetta slá út allar aðrar lygar,“ sagði hann á CNN-sjónvarpsstöðinni.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …