
Föstudaginn 28. ágúst flugu langdrægar, bandarískar B-52-sprengjuvélar (Stratofortress-vélar) í fylgd orrustuþotna frá ýmsum löndum yfir öll 30 aðildarríki NATO í æfingaskyni að sögn NATO og Bandaríkjahers.
Um var að ræða sex sprengjuvélar frá Minot-flugherstöðinni í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum. Var hópnum skipt í tvennt. Tvær átta hreyfla þotnanna flugu yfir Bandaríkin og Kanada en hinar fjórar flugu yfir NATO-ríkin í Evrópu. Þessar fjórar vélar komu til Evrópu laugardaginn 22. ágúst.
Um 80 orrustuþotur slógust í för með B-52-vélunum yfir mismunandi löndum. Var það liður í æfingunni að samhæfa flug sprengjuvélanna og orrustuvélanna.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði að markmið æfingarinnar væri að tryggja að NATO hefði burði til að sinna kjarnaverkefni sínu: að fæla frá árás, hindra átök og varðveita frið.
Meðalflugtími vélanna í yfirfluginu var um 8,5 klukkustundir.
Frá árinu 2018 hefur bandaríski flugherinn sent sprengjuvélar í rúmlega 200 leiðangra yfir Evrópu.
Ferðum á norðurslóðir hefur fjölgað.

Bandaríkjaher sendi alls sex B-52-vélar til Fairford-flugherstöðvarinnar í Bretlandi föstudaginn 21. ágúst í aðdraganda æfingarinnar föstudaginn 28. ágúst.
Þessum vélum var flogið frá Minot-flugherstöðinni í Norður-Dakóta norður fyrir Thule-stöðina á Grænlandi og síðan suður eftir Fram-sundi og suður með strönd Noregs, fyrir austan Ísland, til Bretlands þar sem þær lentu að morgni laugardags 22. ágúst.
Á mbl.is birtist þessi frétt föstudaginn 28. ágúst:
„Tvær sprengjuvélar Atlantshafsbandalagsins (NATO) flugu æfingarflug yfir Ísland klukkan 8 í morgun en í dag fljúga fjórar vélar yfir alla Evrópu og tvær yfir Norður-Ameríku, ásamt 80 orrustuflugvélum á vegum bandalagsins.
Alls fljúga sex bandarískar Air Force Stratofortress B-52 sprengjuvélar í dag yfir öll aðildarríki NATO, 30 talsins. Viðburðurinn nefnist Allied Sky og er á vegum bandalagsins, af því er segir á vef NATO. Þátttaka Íslands í viðburðinum er óbein, þar sem Ísland er ábyrgðaraðili loftrýmiseftirlits í Norður-Atlantshafi.“