Home / Fréttir / B-52 sprengjuvélar í lágflugi yfir Stokkhólmi

B-52 sprengjuvélar í lágflugi yfir Stokkhólmi

Bandarísk B-52 sprengjuvél.

Tvær bandarískar B-52 sprengjuvélar fóru í lágflugi yfir þinghús og konungshöllina í Stokkhólmi föstudaginn 2. september. Með fluginu lauk æfingu vélanna í Svíþjóð að þessu sinni.

Klukkan var 12.15 að staðartíma þegar vélarnar tvær birtust yfir sænsku höfuðborginni í fylgd sænskra JAS Gripen orrustuvéla.

Þátttaka B-52 vélanna í æfingum með sænska flughernum var ekki nýlunda að þessu sinni, sagði Therese Fagerstedt, upplýsingafulltrúi sænska hersins við AFP-fréttastofuna – vélunum hefði hins vegar aldrei áður verið flogið yfir Stokkhólm.

Taldi hún flugið hafa meiri gildi nú en áður vegna aðildarumsóknar Svía að NATO.

NATO-aðildarsumsóknir Finna og Svía eru nú til afgreiðslu í 30 aðildarríkjum NATO og hafa 24 þeirra þegar samþykkt umsóknirnar. Öll ríkin 30 verða að veita samþykki sitt.

Pekka Haavistö, utanríkisráðherra Finna, sagði laugardaginn 3. september að forystumenn allra NATO-ríkjanna nema Tyrklands hefðu lýst stuðningi við aðild Finna og Svía. Hann sagðist jafnframt vera bjartsýnn um niðurstöðuna í Tyrklandi.

Fulltrúar Finna og Svía hittu sendinefnd frá Tyrklandi á dögunum og tóku upp þráðinn í viðræðum um NATO-aðildina eftir að umsóknir þjóðanna voru samþykktar í lok júní á toppfundi NATO í Madrid. Fulltrúar ríkjanna þriggja hittast formlega að nýju í október.

Skoða einnig

Rússland: Herkvaðning leiðir til þrýstings á landamæri

Um 17.000 rússneskir ríkisborgarar fóru um liðna helgi yfir landamærin til Finnlands segja finnskir landamæraverðir. …