Home / Fréttir / B-52 sprengjuvél yfir Barentshafi

B-52 sprengjuvél yfir Barentshafi

Bandarísk B-52 sprengjuvél og norsk F-16 orrustuþota á norðurslóðum.
Bandarísk B-52 sprengjuvél og norsk F-16 orrustuþota á norðurslóðum.

Hermenn í stöðvum í Norður-Noregi vísuðu fimmtudaginn 3. desember flugmönnum bandarískrar B-52-sprengjuvélar á skotmörk þeirra á norðurslóðum. Bandaríska vélin var meðal annars við æfingar yfir Barentshafi. Norskar og grískar F-16 orrustuþotur bandarísku vélinni á æfingaflugi hennar.

Stine Barclay Gaasland, upplýsingafulltrúi norska flughersins, sagði við norsku vefsíðuna Barents Observer:

„Flogið var yfir Nordland-fylki. Landhermennirnir eru í stórskotaliði og njósnaliði í Setermonen.“

Liðsveitirnar eru hluti Norður-stórfylkisins sem er haldið úti fyrir austan Tromsø í Norður-Noregi.

Bærinn Setermoen er stjórnsýslumiðstöð sveitarfélagsins Bardu í Troms- og Finnmerkur-fylki í Noregi. Bærinn ert við Bardu-ána um 25 km fyrir austan þorpið Sjøvegan og um 25 km fyrir sunnan Bardufoss.

Föstudaginn 4. desember sagði á vefsíðu bandaríska blaðsins Stars and Stripes að upphaflega hefðu tvær B-52 Stratofortress spengjuvélar verið sendar til Barentshafs í eins dag æfingaflug frá Minot-flugherstöðinni í Norður-Dakota í Bandaríkjunum. Annarri vélinni var hins vegar snúið til flugherstöðvar Breta í Fairford á Englandi vegna tæknibilunar.

Æfingaflugið norður fyrir heimskautsbaug 3. desember var liður í æfingaáætlun bandarískra flughersins sem snýst um að senda langdrægar sprengjuvélar reglulega til Evrópu og annað. B-52 vélarnar má vopna með bæði kjarnorkusprengjum og venjulegum sprengjum, þær geta flogið í allt að 50.000 feta hæð.

Í byrjun september fylgdu orrustuþotur frá Úkraínu þremur B-52 vélum inn í lofthelgi Úkraínu skammt frá Krímskaga sem lýtur yfirráðum Rússa.

Rússar kvarta að jafnaði undan því ef bandarískar sprengjuvélar athafna sig á Svartahafi eða Barentshafi. Í ágúst sökuðu Bandaríkjamenn rússneska orrustuflugmenn um að sýna „aðgæsluleysi og ófagmannlega framkomu“ nærri bandarískum B-52 vélum yfir Svartahafi.

Í maí 2020 sendi bandaríski flotinn fjögur herskip inn á Barentshaf. Höfðu bandarísk herskip þá ekki verið þar við æfingar síðan í kalda stríðinu á níunda áratugnum.

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …