Home / Fréttir / B-2 sprengjuþota flýgur norður fyrir heimskautsbaug

B-2 sprengjuþota flýgur norður fyrir heimskautsbaug

 

Miðvikudaginn 28. ágúst 2019 kom bandarísk B-2 sprengjuþota til Keflavíkur og tók eldsneyti með svonefndri hot-pit aðferð. Í henni felst að dælt er eldsneyti í tanka vélar án þess að drepið sé á vélum hennar. B-2 hafði aldrei áður lent á Íslandi og birti bandaríski flugherinn þessa mynd af eldsneytistökunni.
Miðvikudaginn 28. ágúst 2019 kom bandarísk B-2 sprengjuþota til Keflavíkur og tók eldsneyti með svonefndri hot-pit aðferð. Í henni felst að dælt er eldsneyti í tanka vélar án þess að drepið sé á vélum hennar. B-2 hafði aldrei áður lent á Íslandi og birti bandaríski flugherinn þessa mynd af eldsneytistökunni.

Bandarískri B-2 Spirit, torséðri sprengjuþotu, var aðfaranótt fimmtudags 5. september flogið norður fyrir heimskautsbaug á Noregshafi og nær Rússlandi á norðurslóðum en áður er vitað. Þessi langdræga sprengjuþota er hönnuð til að brjótast í gegnum öflug loftvarnakerfi.

Eldsneytisvél af gerðinni KC-135 fylgdi bandarísku sprengjuþotunni og fyllti hana af eldsneyti á næturflugi. Bandaríska herstjórnin U.S. Air Force in Europe & Air Force Africa skýrði frá þessu á Twitter föstudaginn 6. september.

Brynjar Stordal, talsmaður norska hersins, sagði við Barents Observer að flugvélarnar hefðu ekki verið innan norskrar lofthelgi.

Á vefsíðunni Barents Observer sagði föstudaginn 6. september að þá væru tvær B-2 Spirit sprengjuþotur í stöð breska flughersins í Fairford Englandi. Vélarnar tvær hefðu millilent á Keflavíkurflugvelli og tekið eldsneyti.

Vitnað er í fréttatilkynningu bandaríska flughersins þar sem segir að með því að senda langdrægar sprengjuþotur til Íslands sé látið á það reyna hvernig nýta megi aðstöðuna á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem útstöð fyrir B-2 þoturnar og tryggja þannig að grípa megi til þeirra sem trúverðugs afls í þágu fælingar og varna Bandaríkjanna og bandamanna þeirra á tímum þegar staðan í öryggismálum verði sífellt flóknari.

Í mars 2018 var bandarískri B-52 langdrægri sprengjuþotu flogið í fylgd þriggja, norskra F-16 orrustuþotna í þjálfunarskyni yfir alþjóðlegu svæði á Noregshafi.

B-52 vélarnar eru 50 ára gamlar en B-2 eru nýjustu og háþróuðustu sprengjuþoturnar. Þeim var fyrst beitt árið 1999 í stríðinu í Kosovo.

Undanfarin ár hafa Rússar komið á fót víðtæku loftvarnakerfi með skotflaugum á norðurslóðum þar á meðal Tor-M2DT færanlegum skotpöllum í Petsamó-dalnum skammt frá landamærum Noregs í ágúst 2019.

Undanfarið og nú síðast í ágúst hafa Rússar æft útþenslu varnarsvæðis síns út fyrir Barentshaf. Með þessari útþenslu vilja Rússar hafa stjórn á skipaferðum á hafsvæði sem nær allt frá Kólaskaganum að GIUK-hliðinu að mati Barents Observer  sem segir að markmið Rússa með þessu sé að verja langdræga kjarnorkukafbáta með heimahöfn í Gadzhijevo á Kólaskaga og þá kafbáta sem sveima um Barentshaf og Norður-Íshaf.

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …