Home / Fréttir / B-2 Spirit lendir í fyrsta skipti á meginlandi Evrópu

B-2 Spirit lendir í fyrsta skipti á meginlandi Evrópu

B-2 Spirit þotan fær eldsneyti á Ørland-flugvelli í Noregi.

Bandarísk torséð sprengjuþota, B-2 Spirit, hafði í fyrsta sinn viðdvöl í Noregi þriðjudaginn 29. ágúst þegar hún lenti á Ørland-flugvelli og tók eldsneyti án þess að drepið væri á hreyflum hennar og hóf síðan strax á loft að nýju.

Á vefsíðunni Aviation24.be segir að þetta sé ekki aðeins í fyrsta sinn sem þota af þessari gerð lendi á Skandinavíuskaga heldur hafi slík þota aldrei fyrr lent á meginlandi Evrópu.

B-2 Spirit þotan flaug frá Keflavíkurflugvelli til Noregs en hér á landi eru slíkar þotur nú í þriðja sinn á fjórum árum. Í Aviation24.be segir að þessum bandarísku þotum sé sjaldan lent utan Bandaríkjanna en þaðan fari þær um það bil einu sinni á ári til æfinga. Hver vél kosti um 2,2 milljarða Bandaríkjadala.

Þrjár B-2 Spirit þotur komu hingað til lands 13. ágúst en áður komu slíkar vélar hingað 2019 og 2021. Í bandaríska flughernum eru 20 þotur af þessari gerð og er heimavöllur þeirra í Whiteman-flugherstöðinni í Missouri-ríki í Bandaríkjunum. Þoturnar geta bæði borið venjuleg vopn og kjarnavopn.

Í frétt í blaði Bandaríkjahers, Stars and Stripes, um lendingu þotunnar á Ørland-flugvelli segir að í júní 2023 hafi tvær B-1B Lancer sprengjuþotur frá Texas lent í fyrsta skipti á Luleå-flugvelli í Svíþjóð þar sem Kallax-flugherstöðin er. Þangað hafi þær komið frá Fairford-flugherstöðinni á Englandi.

B-2 Spirit þoturnar geta flogið 6.000 sjómílur án þess að taka eldsneyti og komist til allra heimshorna á fáeinum klukkustundum að sögn Northrup Grumman sem smíðar vélarnar.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …