Home / Fréttir / Ávarp utanríkisráðherra í tilefni af 75 ára afmælis NATÓ

Ávarp utanríkisráðherra í tilefni af 75 ára afmælis NATÓ

 

Utanríkisráðherra ávarpar málþing í tilefni af 75 ára afmælis Atlantshafsbandalagsins, mánudaginn 13. maí 2024. - Mynd utanríkisráðuneytið

Grunngildin sem Atlantshafsbandalaginu er ætlað að verja, tengsl friðar og varna auk framlags Íslands til Atlantshafsbandalagsins fyrr og nú voru meginstef opnunarávarps Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á málþingi í tilefni af 75 ára afmæli Atlantshafsbandalagins sem fram fór í hátíðarsal Háskóla Íslands mánudaginn 13. maí sl.

Að málþinginu stóðu Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Varðberg – samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál og utanríkisráðuneytið. Auk utanríkisráðherra ávörpuðu Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, og Gabrielus Landsbergis, utanríkisráðherra Litáen, ráðstefnuna um fjarfundarbúnað.

Sá kjarkur og hugrekki, sem fyrirrennarar okkar sýndu, áorkaði því að við stöndum ekki ein heldur erum órjúfanlegur hluti af vörnum vestrænna lýðræðisríkja. Í því felst mikill styrkur. Í því felst fælingarmáttur. Í því felst meira öryggi.

Í ávarpi sínu fór Þórdís Kolbrún yfir sögu Íslands innan bandalagsins sem eitt af tólf stofnríkjum þess. Hún gerði að umtalsefni áherslu Bjarna Benediktssonar, þáverandi utanríkisráðherra, sem undirritaði Atlantshafssáttmálann fyrir Íslands hönd árið 1949, á að aðild Íslands snerist ekki einvörðungu um að tryggja okkar eigin varnir heldur um að leggja eitthvað af mörkum til sameiginlegra varna þeim gildum sem eru undirstaða okkar frjálsa samfélags.

„Bandalagið snýst nefnilega ekki bara um að telja skriðdreka og freygátur; og tilgangur þess er ekki aðeins að verja hvern einasta þumlung bandalagsríkja; Atlantshafsbandalagið er líka pólitískt bandalag lýðræðisríkja. Og það er eftirsóttur klúbbur sem setur viðmið fyrir umsóknarríki og hvetur samstarfsríki til umbóta. Þannig skapar bandalagið stöðugleika á pólitíska sviðinu og hefur þannig verið aflvaki lýðræðis og umbóta í Evrópu,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Í ræðu sinni ræddi ráðherra það hvernig NATÓ hefði þróast með árunum og tæki til að mynda ekki bara til hefðbundinna varna á lofti, láði og legi heldur nú einnig í geimnum og á netinu. Hún sagði stuðning Íslands við Úkraínu tengjast með beinum hætti okkar eigin hagsmunum.

Ræðu hennar má nálgast í heild sinni hér.

 

Frá málþingi í tilefni af 75 ára afmælis Atlantshafsbandalagsins. – Mynd utanríkisráðuneytið.

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …