Home / Fréttir / Austurríki: Rannsókn beinist að hugsanlegum hryðjuverkahring eftir árás í Vín

Austurríki: Rannsókn beinist að hugsanlegum hryðjuverkahring eftir árás í Vín

Öryggisvarsla í Vín.
Öryggisvarsla í Vín.

Austurrísk yfirvöld rannsaka nú hvort hópur hryðjuverkamanna stóð að baki árás sem gerð var í miðborg Vínar að kvöldi mánudags 2. nóvember. Fjórir féllu, tvær konur og tveir karlar, en 23 særðust af skotsárum eða stungusárum. Enginn er lengur í lífshættu. Aðeins einn maður framdi illvirkið, Kutjim Fejzulai, 20 ára.

Karl Nehammer, innanríkisráðherra Austurríkis, viðurkenndi miðvikudaginn 4. nóvember að yfirvöld hefðu gert mistök. Hann sagði á blaðamannafundi í Vín að austurríska leyniþjónustan hefði þegar í júlí fengið upplýsingar frá leyniþjónustu nágrannaríkisins Slóvakíu um Kutjim Fejzulai. Þá hefði lögreglan í Bratislava, höfuðborg Slóvakíu, skammt frá Vín, einnig sent upplýsingar til austurríska innanríkisráðuneytisins um að eitthvað væri á seyði tengt Kutjim Fejzulai.

Grunur um að ekki væri allt sem sýndist vaknaði eftir að Kutjim Fejzulai og annar maður reyndu í júli að kaupa skot í vopnin sem voru notuð á mánudagskvöld. Þeim tókst ekki að kaupa skotfærin þar sem þeir gátu ekki framvísað gildu byssuleyfi.

Karl Nehammer neyddist einnig til að viðurkenna að 20 ára gamla hryðjuverkamanninum hefði tekist að leika á yfirvöldin þegar honum var sleppt úr fangelsi eftir mjög stutta dvöl þar í desember 2019. Fyrr þá um árið var hann dæmdur í 22 mánaða fangelsi fyrir að ætla að ganga í hryðjuverkasamtökin Ríki íslams. Hann fór til Tyrklands þar sem hann hitti tvo Þjóðverja og Belga áður en hann var tekinn fastur.

Vegna þess hve hann er ungur og þar sem honum tókst að blekkja nefnd sérfræðinga við mat á öfgahyggju, sem taldi hann ekki lengur hættulegan, var honum sleppt úr fangelsi.

Við matið á öfgaskoðunum hans var ekki gætt nægilegrar aðgæslu. Þar var til dæmis ekki litið til viðvarana öryggisyfirvalda í Slóvakíu.

„Hér er um að ræða samskiptabrest. Við rannsökum nú hvernig hann gat orðið,“ sagði austurríski innanríkisráðherrann.

Kutjim Fejzulai var vopnaður hríðskotabyssu, skammbyssu og sveðju þegar hann hóf árás sína.

Í fyrstu hélt lögreglan að hópur manna stæði að hryðjuverkinu. Eftir að hafa skoðað um 20.000 stutt myndskeið er hún sannfærð um að aðeins einn illvirki hefði verið á ferð.

Kutjim Fejzulai ólst upp í Austurríki. Hann hafði tvöfaldan ríkisborgararétt, frá Austurríki og Norður-Makedóníu.

Skömmu fyrir árásina í miðborg Vínar vottaði Kutjim Fejzulai opinberlega Ríki íslams hollustu sína á samfélagsmiðlum. Á níu mínútum réðst hann síðan á níu staði og hleypti af tæplega 100 skotum úr hríðskotabyssunni og skammbyssunni. Lögreglunni tókst að særa hann með skoti og er hann nú undir læknishendi. Þriðjudaginn 3. nóvember gekkst Ríki íslams við hryðjuverkinu eins og samtökin gera jafnan þegar félagi í þeim lætur að sér kveða.

Sólarhringinn eftir árásina gerði lögreglan 18 húsleitir og handtók 14 manns í Austurríki. Þeir sem teknir voru fastir eru á aldrinum 18 til 28 ára og allir með rætur utan Austurríkis. Þeir eru í gæsluvarðhaldi á meðan málið er rannsakað nánar.

Svissneska lögreglan lagði einnig lið við rannsókn málsins með húsleitum í Wintherthur í Sviss. Saksóknaraembættið í Zürich segir að tveir menn 18 og 24 ára séu undir rannsókn vegna aðildar að hryðjuverkamáli. Ekki er upplýst hver verknaður er. Á hinn bóginn liggur fyrir að Kutjim Fejzulai átti reglulega samskipti við mennina og þeir hittust þrír nýlega.

 

Heimild: Jyllands-Posten

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …