Home / Fréttir / Austurríkismenn við öllu búnir með öflugri landamæravörslu

Austurríkismenn við öllu búnir með öflugri landamæravörslu

 

Lnadamæravarsla æfð í Austurríki.
Lnadamæravarsla æfð í Austurríki.

Austurrísk stjórnvöld efndu til æfingar við landamæravörslu þriðjudaginn 26. júní. Heinz-Christian Strache, varakanslari og formaður Frelsisflokks Austurríkis (FPÖ), sagði í samtali við þýska blaðið Bild að æfinguna mætti meðal annars rekja til ágreinings innan þýsku ríkisstjórnarinnar um útlendingamál.

Óljóst er hvernig deilu Angelu Merkel Þýskalandskanslara (CDU) við Horst Seehofer innanríkisráðherra (CSU) um gæslu þýsku landamæranna lýkur. CDU og CSU mynda ríkisstjórn í Þýskalandi með jafnaðarmönnum (SPD). Stöðug fundarhöld voru þriðjudaginn 26. júní Berlín í leit að lausn á ágreiningum innan stjórnarinnar.

Í samtalinu við Bild sagði Heinz-Christian Strache:

„Á þriðjudag verður efnt til víðtækrar æfingar lögreglu og herliðs í Spielfeld þar sem ný Puma-lögreglu landamærasveit verður einnig kynnt til sögunnar í fyrsta sinn.

Með þessari æfingu á landamærum Austurríkis og Slóveníu viljum búa okkur undir allt sem kann að gerast og senda skýr skilaboð um að ekki verður aftur um stjórnleysi og frjálsa för að ræða eins og árið 2015.

Ástæðurnar fyrir þessu eru umræðurnar um lokun innri evrópsku landamæranna sem Þjóðverjar hófu og það sem nú er að gerjast á flóttamannaleiðunum á Balkanskaga.“

Rúmlega 500 lögreglumenn og 220 hermenn tóku þátt í æfingunni. Hlutverk þeirra var að hefta för lögreglunema sem léku flóttamenn og reyndu að komast yfir landamærin frá Slóveníu til Austurríkis. Nýlega hafa sárafáir flóttamenn reynt að komast inn í Austurríki í Spielfeld.

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis úr mið-hægri ÖVP-flokknum sagði :

„Við viljum vera við öllu búnir og gera allt sem er nauðsynlegt til að vernda landamæri okkar. Það þýðir að tryggja lokun þeirra í Brenner [skarð í Ölpunum gagnvart Ítalíu] en einnig annars staðar.

Ég vil hins vegar stofna til samstarfs til að koma í veg fyrir að það gerist. Við verðum í fyrsta lagi að tryggja að ólöglegt farandfólk komist ekki lengur til Evrópusambandsins vegna þess að þá þurfum ekkert eftirlit við innri landamæri í Evrópu.“

Horst Seehofer, innanríkisráðherra Þýskalands og leiðtogi CSU, Kristilega sósíalflokksins, í Bæjaralandi, samþykkti tillögu Merkel um að bíða til 1. júlí eftir hvort finna mætti sameiginlega evrópska lausn til að fækka flóttamönnum. Seehofer nýtur stuðnings austurrísku ríkisstjórnarinnar þegar hann segist ætla að neita hælisleitendum sem skráðir eru í öðrum ESB-löndum að koma til Þýskalands.

Óvíst er hvað gerist í ríkisstjórn Merkel takist ekki að finna viðunandi evrópska lausn á vandanum.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …