Home / Fréttir / Austurríkismenn reisa girðingu á landamærunum við Slóveníu

Austurríkismenn reisa girðingu á landamærunum við Slóveníu

Austurrískir hermaður við nýju landamæragirðinguna.
Austurrískir hermaður við nýju landamæragirðinguna.

Austurríkismenn hafa hafist handa við að reisa landamæragirðingu gagnvart Slóveníu til að ná betri stjórn á komu flóttamanna til landsins að sögn ríkisstjórnarinnar. Undanfarnar vikur hefur þó dregið úr flóttamannastraumnum. Aldrei fyrr hefur slík girðing verið reist á landamærum tveggja Schengen-ríkja.

Austurrískir hermenn vinna við að setja upp girðinguna sem verður 3.7 km löng. Ríkisstjórn Austurríkis skýrði í október frá áformum sínum um girðinguna. Hún yrði ekki til að loka leiðum flóttamanna heldur til að auka öryggi þeirra og annarra. Stefnt er að því að framkvæmdum við girðinguna ljúki fyrir jól.

Hægt hefur á straumi farand- og flóttafólks til Slóveníu og Austurríkis undanfarið vegna þess að veður hefur versnað og Tyrkir hafa gripið til ráðstafana innan landamæra sinna til að halda fólki þar.

Tilgangur með girðingum við leiðir fólks um Balkanlöndin er einkum að halda aftur af farandfólki sem ekki hefur stöðu flóttamanna en leitar að betri lífskjörum. Að tekist hefur að hindra för þessa fólks sést á fækkun þeirra sem leggja leið sína um Slóveníu og Austurríki.

Flestir sem leggja land undir fót frá Tyrklandi eru á leið annað en til Slóveníu eða Austurríkis, þeir vilja komast til Þýskalands eða Norðurlandanna. Hvað sem því líður er líklegt að allt að 100.000 hælisumsóknir verði lagðar fram í Austurríki á þessu ári.

ESB-landið Króatía er enn utan Schengen-samstarfsins og reistu Slóvenar girðingu á landamærunum gagnvart Króatíu í nóvember til að halda aftur af straumi aðkomufólks til lands síns.

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …