
Austurrísk yfirvöld hafa ákveðið að loka landamærum sínum við Slóveníu fyrir þeim sem segjast á leið til Norðurlandanna. Lokunin kemur til sögunnar nú í vikunni segir Johanna Mikl-Leitner, innanríkisráðherra Austurríkis.
Hún segir við austurríska fjölmiðla að Austurríkismenn fari að þessu leyti að fordæmi Þjóðverja sem hafi gripið til þess ráðs að halda utan landamæra sinna hluta þess fólks sem heldur frá Austurríki til Þýskalands.
Segi farand- eða flóttafólk við þýska landamæraverði að það ætli að fara um Þýskaland til Norðurlanda er það sent aftur til Austurríkis.
Dag hvern er 200 til 300 manns snúið til baka af þessum sökum.
Austurrísk stjórnvöld telja að um 120.000 manns muni í ár sækja um hæli í Austurríki.
„Allir vita að það gengur ekki upp,“ segir innanríkisráðherrann.
Til að sporna gegn straumi fólks til landsins hafa austurrísk stjórnvöld nú ákveðið að stöðva ferð þess fólks sem segist til dæmis ætla til Svíþjóðar eða Danmerkur. Það fær einfaldlega ekki að stíga fæti inn í Austurríki.
„Frá og með næstu viku munum við stöðva það við suðurlandamæri okkar [Slóveníu],“ sagði innanríkisráðherrann föstudaginn 15. janúar við útvarpsstöðina OE 1.
Fjöldi fólks fór um Austurríki árið 2015 á leið sinni til Þýskalands og Svíþjóðar sem voru vinsælustu löndin meðal farand- og flóttafólks.
Svíar hafa hert landamæravörslu sína og Danir siglt í kjölfar þeirra. Nú eru Þjóðverjar teknir til við að loka landamærum sínum við Austurríki fyrir fólki á leið til Norðurlandanna.
Í Der Spiegel hefur birst frétt um að Austurríkismenn hafi rætt við Króata og Slóvena um að austurrískir lögreglumenn verði sendir til landanna tveggja til að aðstoða landamæraverði þeirra við að stöðva farand- og flóttafólk við landamærin.
Haft er eftir embættismanni í Slóveníu að þar í landi neyðist menn einnig til að herða landamæravörslu til að hindra að stórir hópar fólks verði strandaglópar í Slóveníu.
Heimild: Jyllands-Posten, AFP, Reuters.