Home / Fréttir / Harka eykst gegn aðkomufólki í Balkanríkjunum – Orban hótar ESB þjóðaratkvæðagreiðslu

Harka eykst gegn aðkomufólki í Balkanríkjunum – Orban hótar ESB þjóðaratkvæðagreiðslu

Schengen

Viktor Orban. forsætisráðherra Ungverjalands, sagði miðvikudaginn 24. febrúar að  efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu í landi sínu ef ESB „mælti fyrir um það“ sem hann kallaði „skyldu móttöku á fólki án ungversks ríkisborgararéttar“.

Hann sagði ekki hvenær efnt yrði til atkvæðagreiðslunnar hins vegar hefðu spurningar í henni þegar verið samdar og sendar til kjörstjórnar Ungverjalands. ESB-leiðtogaráðið ákváð í fyrra að dreifa 160.000 flóttamönnum í Grikklandi og á Ítalíu til ríkjanna 28 innan ESB. Til þessa hafa aðeins 500 verið sendir til annarra landa samkvæmt áætluninni.

Yfirlýsing Orbans birtist í sama mund og efnt var til fundar fulltrúa Austurríkis og stjórnvalda í Vestur-Balkanríkjunum í Vínarborg til að ræða vandann vegna aðkomufólksins frá Grikklandi. Einnig bárust fréttir um að 1000 manns, þar á meðal börn frá Sýrlandi, væru strandaglópar á landamærum Serbíu og Króatíu.

Hvorki Þjóðverjar, Grikkir né ESB áttu fulltrúa á fundinum í Vínarborg.

Sawsan Chebli, upplýsingafulltrúi þýska utanríkisráðuneytisins, sagði í tilefni af fundinum í Vínarborg: „Við náum ekki miklum árangri ef allir leita lausna sem aðeins henta þeim.“

Sebastian Kurz, utanríkisráðherra Austurríkis, sagði Grikkjum ekki hafa verið boðið vegna þess að stjórnvöld þeirra hefðu „ótvírætt sagt“ að þau hefðu engan áhuga á að minnka straum flótta- og farandfólks frá Tyrklandi. „Við verðum að minnka þennan straum núna. Þetta snýst um líf eða dauða fyrir ESB,“ sagði Johanna Mikl-Leitner, innanríkisráðherra Austurríkis, eftir fundinn í Vínarborg.

Í yfirlýsingu frá fundinum er hvatt til þess að samræmdar kröfur verði settar um skráningu aðkomufólks og staðið fast á reglum um för yfir landamæri. Auk fulltrúa frá Austurríki sátu fulltúar frá ESB-ríkjunum: Slóveníu, Króatíu og Búlgaríu fundinn og ekki-ESB-ríkjunum: Albaníu Kosóvó, Makedóníu, Svartfjallalandi og Serbíu.

„Það er ekki unnt að afgreiða ótakmarkaðan fjölda aðkomufólks og hælisumsókna,“ segir í 19 liða yfirlýsingu fundarins. „Draga verður umtalsvert úr fjölda þess fólks sem fer leiðina um Vestur-Balkanríkin.

Framkvæmdastjórn ESB og fulltrúi Hollands sem nú situr í forsæti leiðtogaráðs ESB hafa varað við „mannlegum harmleik“, einkum í Grikklandi, vegna flótta- og farandfólks sem er strandað á leið sinni norður Evrópu eftir lokun landamæra Makedóníu gagnvart Grikklandi.

Austurríkismenn sæta þungri gagnrýni fyrir að hafa ákveðið að taka aðeins á móti 80 hælisumsóknum á dag og setja 3.200 manna þak á fjölda þeirra sem kemst daglega inn í landið með því skilyrði að fólkið fari til annars lands og sæki um hæli þar. Stjórn Austurríkis hefur gagnrýni af hálfu ESB að engu og lýsir henni sem þvælu.

EUobserver segir að ástandið sé nú orðið eins og því hefur verið spáð verstu í sviðsmyndum ESB. Grikkland hafi í raun verið einangrað frá Schengen-svæðinu og Grikkir sitji einir uppi með hundruð þúsunda strandaglópa samhliða því sem þar sé tekist á fjármálalegt og samfélagslegt hættuástand.

Talið er að daglega komi 2.000 til 3.000 manns ólöglega til einhverra grísku eyjanna frá Tyrklandi. Þriðjudaginn 22. febrúar komu til dæmis 1.130 flóttamenn til Piraeus, hafnarborgar Aþenu, þar sem hlynnt verður að þeim.

Dimitri Avramopoulos, útlendingamálastjóri ESB, og Klaas Dijkoff, útlendingamálaráðherra Hollands, sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þriðjudaginn 23. febrúar þar sem þeir vöruðu við að mannlegur harmleikur blasti við í nokkrum löndum, einkum Grikklandi. Hvöttu þeir yfirvöld allra landa á flótta- og farandmannaleiðinni að búa sig undir neyðarástand svo að létta mætti undir með þeim sem ættu um sárt að binda.

Framkvæmdastjórn ESB hefur einnig boðað aðgerðir af sinni hálfu en EUobserver segir miðvikudaginn 24. febrúar að henni virðist í raun allar bjargir bannaðar. ESB-ríki séu hætt að starfa saman heldur vinni þau hvert gegn öðru til að bægja straumi aðkomufólks frá eigin landi. Þar séu Austurrikismenn í fararbroddi að sögn talsmann framkvæmdastjórnarinnar. Sæta þeir þungri gagnrýni fyrir að boða til fundarins sem að ofan er lýst.

Leiðtogaráð ESB ræddi ákvarðanir Austurríkismanna um takmörkun á fjölda hælisumsókna á fundi sínum föstudaginn 19. febrúar. Segja heimildarmenn að þá hafi austurrískir ráðamenn lofað að efna ekki til ofangreinds fundar. Þá hefur framkvæmdastjórn ESB einnig sent stjórn Austurríkis bréf og sagt ólöglegt að takmarka fjölda hælisumsókna á þann veg sem gert hefur verið. Auk þess bryti það gegn samþykktum ESB-ríkja að senda fólk til annarra landa á þann veg sem nú er gert í Austurríki.

Ríkisstjórn Austurríkis segist ósammála afstöðu framkvæmdastjórnarinnar. Werner Faymann kanslari Austurríkis, segir kröfuna um að fjöldatakmörkunum verði hætt „þvælu“ og Austurríkismenn geti ekki farið að slíkum ráðum.

Austurríski sendiherrann í Aþenu var kallaður í utanríkisráðuneytið þar þriðjudaginn 23. febrúar þar sem fundinum í Vínarborg var mótmælt en Grikkir eru ekki boðaðir til hans. Saka Grikkir Austurríkismenn um einhliða aðgerðir sem beri alls ekki með sér vinsamlega afstöðu gagnvart landi þeirra og þjóð.

Talsmenn þess að loka landamærum Makedóníu og láta Grikki sitja uppi með vandann vegna aðkomufólksins segja þá leið betri en að Schengen-samstarfið allt hverfi úr sögunni, betra sé að útiloka eitt ríki en stofna öllu samstarfinu í uppnám. Talsmenn ESB segja hins vegar ólíðandi að Grikkland verði biðstöð tug þúsunda manna án húsaskjóls auk þess sem virða beri Schengen-meginreglurnar.

Olga Gerovasili, upplýsingafulltrúi grísku ríkisstjórnarinnar, sagði þriðjudaginn 23. febrúar að grísk yfirvöld gætu tekist á við hvaða ástand sem myndaðist vegna aukins straums aðkomufólks, sama hve erfitt það yrði.

Nú stendur yfir þriggja mánaða tímabil sem Grikkir hafa til að bregðast við umkvörtunum sem framkvæmdastjórn ESB sendi þeim 12. febrúar og lúta að vanrækslu þeirra við landamæravörslu. Umkvartanirnar eru 50 liðum og voru sendar sem liður í undirbúningi þess að tryggja lögmæti framlengingar á landamæravörslu innan Schengen-svæðisins meðn vísan til þess að gæsla ytri landamæra svæðisins sé í molum í Grikklandi. Austurríkismenn og Þjóðverjar hafa heimild til landamæravörslu fram í maí en vilja svigrúm til að halda henni áfram eftir þann tíma.

Til þessa hafa Þjóðverjar viljað knýja Grikki til að bæta gæslu landamæra sinna auk þess samið sé við Tyrki um að stemma stigu við straumi fólks til grísku eyjanna. Þetta sé leið til að halda Grikkjum í Schengen-samstarfinu.

Heimildir: dw.de, EUobserver

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …