
Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, leysti upp stjórn sína og boðaði í skyndi til kosninga laugardaginn 18. maí eftir að leiðtogi samstarfsflokks hans sagði af sér vegna hneykslismáls. „Nú er nóg komið,“ sagði kanslarinn þegar hann tilkynnti stjórnarslitin,
Heinz-Christian Strache varakanslari sagði af sér eftir að myndband sýndi hann bjóða rússneskum fjárfesti verktakasamninga við austurríska ríkið.
Kurz fór lofsamlegum orðum um margt sem áunnist hefði í ríkisstjórn flokks hans, Austurríska lýðflokksins (ÖVP), og Frelsisflokksins. Lengra yrði þó ekki haldið.
Þúsundir manna efndu til mótmæla við kanslaraskrifstofuna allan laugardaginn 18. maí og kröfðust nýrrar ríkisstjórnar.
Þýska vikuritið Der Speigel og dagblaðið Süddeutsche Zeitung í München birtu myndband föstudaginn 17. maí sem sýndi Strache bjóða svonefndum rússneskum fjárfesti arðsöm viðskipti ef styddi flokk sinn, Frelsisflokkinn, í þingkosningunum 2017. Flokkurinn skipar sér til hægri við ÖVP.
Myndin var tekin með leynd á spænsku eyjunni Ibiza nokkru fyrir austurrísku þingkosningarnar í október 2017. Að þeim loknum gekk FPÖ til stjórnarsamstarfs við ÖVP.
Sjö klukkustunda löng upptaka frá Ibiza var send þýskum fjölmiðlum án þess að upplýst væri hver sendandinn er.
Strache ræðir við konu sem segist vera frænka rússnesks auðvaldsmanns sem vilji festa fé í Austurríki. Konan segist heita Aljona Makarova og að frændi sinni vilji kaupa ráðandi hlut í stærsta götublaði Austurríkis, Kronen Zeitung. Síðan mætti nota blaðið til stuðnings FPÖ.
Síðar sýnir myndbandið Strache kalla blaðamenn „mestu hórur pláneturnar“. Johann Gudenus, þingflokksformaður FÖP, sést einnig
á myndbandinu.
Strache afsakaði hegðun sína með því að segja um „fylleríssögu“ að ræða þar sem hann þættist væri „stórkall“, ekkert hefði gerst eftir fundinn.
Fyrrverandi nazistar stofnuðu FPÖ árið 1956. Frá því undir lok síðustu aldar hefur flokkurinn leitast við að fá á sig yfirbragð stjórnhæfs flokks. Hann hefur ræktað tengsl við Fidesz-flokkinn í Ungverjalandi og Bandalagið á Ítalíu. Báðir flokkarnir eiga nú ráðherra í stjórnum landa sinna en þykja skipa sér langt til hægri.