Home / Fréttir / Austurríki: Moskum lokað og múslimaklerkar reknir úr landi

Austurríki: Moskum lokað og múslimaklerkar reknir úr landi

 

Sebastian Krauz kanslari, Christian Strache, varakanslari, og Herbert Kickl innanríkisráðherra kynna lokun moska.
Sebastian Krauz kanslari, Christian Strache, varakanslari, og Herbert Kickl innanríkisráðherra kynna lokun moska.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, lýsti Sebastian Kurz, kanslara Austurríkis, nýlega sem ofmetnum 30 ára „siðlausum kanslara“ sem hefði missti stjórn á sér vegna Tyrkja. Nú hefur Kurz (í raun 31 árs) endanlega gengið fram af Erdogan. Óvænt tilkynnti ríkisstjórn Austurríkis á skyndilega boðuðum blaðamannafundi föstudaginn 8. júní að hún ætlaði að loka sjö moskum og reka fjölda múslimaklerka úr landi. Þetta væri gert með vísan til laga frá 2015 um íslam í Austurríki.

Ástæðan: Trúariðkun múslima er fjármögnuð með erlendu fé. Í tveimur tilvikum hefur múslimaklerkum þegar verið vísað úr landi, sagði Herbert Kickl innanríkisráðherra. Yfirvöld hefðu nú áform um að vísa á brott 60 af 260 múslimaklerkum í Austurríki. Þeir yrðu að yfirgefa landið með fjölskyldum sínum, þetta snerti alls 150 manns.

Sebastian Kurz sagði á blaðamannafundinum að Austurríki væri land fjölbreytni og trúfrelsis en á hinn bóginn væri þar ekkert rými fyrir „samhliða samfélög, pólítískan íslam og þróun í átt til öfgahyggju“.

Stjórnarandstöðuflokkarnir í Austurríki fögnuðu einróma ákvörðun ríkisstjórnarinnar. „Þetta er fyrsta skynsamlega aðgerð ríkisstjórnarinnar,“ sagði Jafnaðarmannaflokkurinn, SPÖ. Frjálslyndir lýðræðissinnar verða að snúast til varnar gegn andstæðingum sínum, í þeim hópi eru einnig pólitískir múslimar, sagði frjálslyndi smáflokkurinn Neos. Græningjar, sem ekki eiga fulltrúa á þingi, töldu þó að hér gæti verið um „PR-brellu“ að ræða sem virkaði í raun sem stuðningur við Erdogan í kosningabaráttu hans í Tyrklandi af því að hann gæti nú dregið upp skarpari óvinaímynd af Austurríkismönnum.

Eftir tvær vikur verður gengið til forseta- og þingkosninga í Tyrklandi. Erdogan berst fyrir endurkjöri og fyrir að halda algjörum meirihluta á tyrkneska þinginu. Stjórnmálaforingjar í Ankara, höfuðborg Tyrklands, brugðust hart og samdægurs við ákvörðuninni sem kynnt var í Vínarborg. Ibrahim Kalin, talsmaður Erdogans forseta, lýsti lokun moskanna sem sönnun þess að „bylgja popúlisma og kynþáttahaturs“ færi um Austurríki. Múslimum væri ýtt til hliðar í þágu pólitísks ávinnings.

Gagnrýnendur ákvörðunarinnar í Vínarborg sögðu stjórnarflokka hægristjórnar ÖVP og FPÖ aðeins ýta undir stuðning við Erdogan í sama mund og utankjörstaðaatkvæðagreiðsla hæfist í sendiráði og ræðisskrifstofum Tyrkja í Austurríki. Ákvörðun austurrísku ríkisstjórnarinnar tekur gildi á meðan föstumánuður múslima, ramadan, stendur enn og þá sækja þeir moskur meira en ella. Þá er stjórninni kappsmál að hrinda ákvörðun sinni í framkvæmd áður en hún tekur við forsæti í ráðherraráði ESB 1. júlí 2018.

Fulltrúar austurríska innanríkisráðuneytisins og skrifstofu kanslaraembættisins um málefni trúarhópa komust að þeirri niðurstöðu að lokinni athugun að sjö moskum skyldi strax lokað. Ein þeirra tilheyrir öfgafullri hreyfingu Tyrkja og stendur við Antonsplatz í Favoriten-hverfinu í Vínarborg, sex tilheyra arabískum trúarhópum: þrjár eru í Vínarborg, ein í Klagenfurt og tvær í Oberösterreich. Þetta er aðeins byrjunin, sagði Christian Strache, varakanslari, formaður FPÖ. Alls eru um 350 moskur í Austurríki.

Þegar Kurz, núverandi kanslari, var ráðherra aðlögunarmála beitti hann sér fyrir að sett yrðu lög um íslam til að tryggja að starfsemi undir merkjum íslam í Austurríki tæki mið af reglum réttarríkisins og lýðræðis. Í lögunum er að finna ákvæði um bann við erlendri fjármögnun á moskum og íslömskum menntastofnunum. Lögin snerta einkum Íslamisk samtök Tyrkja í þágu menningarlegrar og félagslegrar samvinnu í Austurríki (Atib). Samtökin eru hluti af ríkisreknu trúarstofnuninni Diyanet í Tyrklandi. Erdogan hefur stóreflt þessa stofnun á 15 stjórnarárum sínum.

Sem utanríkisráðherra frá 2015 fjallaði Kurz einnig um lögin um íslam eins og forveri hans í embætti. Skipulagt var samstarf við Diyanet sem sendi múslimaklerka til Austurríkis og stofnað var til fræðslu um austurrískt samfélag og stjórnmál. Þetta fyrirkomulag hafði þann kost að stjórnvöld höfðu vissa stjórn á múslimaklerkunum.

Vegna hneykslis í Atib-mosku í Vínarborg í apríl 2018 var hafin athugun á starfsemi bænahúsa múslima og múslimaklerka. Þá fundust myndir af leiksýningum þar sem tyrknesk börn voru látin bera vopn og léku einnig þá sem fallið höfðu í átökum.

 

Heimild: Basler Zeitung

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …