Home / Fréttir / Austurríki: Mið-hægrimaðurinn Sebastian Kurz (31 árs) næsti kanslari

Austurríki: Mið-hægrimaðurinn Sebastian Kurz (31 árs) næsti kanslari

Sebastian Kurz fagnar kosningasigri.
Sebastian Kurz fagnar kosningasigri.

Formaður austurríska Þjóðarflokksins (ÖVP) Sebastian Kurz (31 árs) er líklegastur til að verða næsti kanslari Austurríkis eftir að mið-hægriflokkur hans fékk flest atkvæði í þingkosningunum sunnudaginn 15. október. Talið er að Kurz myndi stjórn með Frelsisflokknum (FPÖ) sem er til hægri við ÖVP.

Þjóðarflokkurinn hlaut 31,5% atkvæða 62 þingmenn ef marka má fyrstu tölur. „Ég lofa ykkur í dag að ég mun berjast af öllu afli fyrir breytingum í landinu,“ sagði Kurz á sigurfundi með stuðningsmönnum sínum. „Ég axla þessa ábyrgð af mikilli auðmýkt.“

Frelsisflokkurinn fékk 25,9% atkvæða og 51 þingmann. Flokkurinn var með aðeins minna fylgi en Jafnaðarmannaflokkurinn (SPÖ) sem fékk 27,1% og 53 þingmenn.

Almennt er talið að Kurz myndi stjórn með FPÖ sem ekki hefur átt ráðherra síðan árið 2000. Hans Jörg Schelling, fjármálaráðherra úr ÖVP, flokki Kurz, sagði þó við þýsku fréttastofuna DW að flokkur hans hefði áhuga á að ræða við alla, hvort heldur FPÖ eða SPÖ. Christian Kern, fráfarandi kanslari úr SPÖ, sagðist ætla að halda áfram sem flokksleiðtogi þótt hann hefði tapað forystusætinu í austurrískum stjórnmálum.

Smáflokkur sem kennir sig við frjálslyndi NEÖS fékk 5,1% atkvæða og 10 þingmenn.

Flokkur Græningja galt afhroð, tapaði 8,5 stigum miðað við kosningarnar 2013. Flokkurinn fékk aðeins 3,9% og engan þingmann. Klofningsflokkur Græningja fékk hins vegar 4,4% og 8 þingmenn.

Kosningabaráttan í Austurríki snerist um útlendingamál, einkum straum farand- og flóttafólks sem skapaði stórvanda í Evrópu á árinu 2015. Þá fóru um 900.000 útlendingar um Austurríki á leið til Þýskalands. Árið 2015 sóttu einnig rúmlega 68.000 manns um hæli í Austurríki, hlutfallið miðað við fólksfjölda er hærra en í flestum öðrum Evrópulöndum.

Jafnaðarmenn (SPÖ) lögðu áherslu á minna atvinnuleysi og hagvöxt í kosningabaráttu sinni en Kurz og ÖVP lofuðu að koma í veg fyrir að atburðirnir frá 2015 endurtækju sig og og að setja fimm ára dvalartíma sem forsendu fyrir félagslegum bótum.

Sebastian Kurz varð utanríkisráðherra Austurríkis árið 2013 aðeins 27 ára að aldri. Hann varð leiðtogi ÖVP í maí 2017. Hann var á sínum tíma virkur í ungliðahreyfingu flokksins og var formaður hennar áður en hann settist í borgarstjórn Vínar. Hann breytti ÖVP í einskonar hreyfingu í kringum sig eins og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, gerði þar í landi. Kallar Kurz flokk sinn sem hefur verið völd í rúm 30 ár Nýja þjóðarflokkinn.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …