Home / Fréttir / Austurríki: Lögregla varar við hugsanlegri árás milli jóla og nýárs

Austurríki: Lögregla varar við hugsanlegri árás milli jóla og nýárs

Austurríska lögreglan.
Austurríska lögreglan.

Lögreglan í Vínarborg sagði laugardaginn 26. desember að „vinveitt“ leyniþjónusta hefði sent frá sér viðvörun til yfirvalda í nokkrum evrópskum höfuðborgum um að hugsanlega yrði gerð árás í þeim með skotvopnum eða sprengjum dagana milli jóla og nýars. Hefur lögregla víðsvegar um álfuna hert aðgæslu sína vegna þessa.

„Nokkur nöfn hugsanlegra árásarmanna voru nefnd, þau voru rannsökuð og til þessa hefur ekkert ákveðið komið í ljós,“ sagði Vínarlögreglan í yfirlýsingu. Nú eru um það bil sex vikur síðan 130 mann féllu í hryðjuverkaárás íslamista í París.

Austurríska lögreglan bað íbúa landsins að sýna auknum öryggisráðstöfunum skilning.

Eftirlit hefur verið aukið á mannmörgum stöðum „einkum á mannamótum og fjölförnum umferðaræðum“, þá eru fleiri en ella krafðir um skilríki og nánar fylgst með hlutum sem geta leynt sprengjum eins og töskum og reiðhjólum.

Talsmaður þýska innanríkisráðuneytisins sagði að af þess hálfu segðu menn ekkert um slíkar ábendingar heldur létu verkin tala.

Austurríska lögrgelan handtók í maí 14 ára dreng sem dæmdur var í átta mánaða fangelsi fyrir tilraunir til hryðjuverks, þar á meðal áform um að sprengja eina fjölförnustu brautarstöð Vínarborgar.

Heimild: The Telegraph

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …