Home / Fréttir / Austurríki: Jafnaðarmenn óttast að tapa fylgi og völdum

Austurríki: Jafnaðarmenn óttast að tapa fylgi og völdum

Jafnaðarmaðurinn (SPÖ) Christian Kern, kanslari Austurríkis, á kosningafundi.
Jafnaðarmaðurinn (SPÖ) Christian Kern, kanslari Austurríkis, á kosningafundi.

Jafnaðarmaðurinn (SPÖ) Christian Kern, kanslari Austurríkis, flutti hörð varnaðarorð gegn hægri bylgjunni meðal kjósenda í lokaræðu sinn í kosningabaráttunni laugardaginn 14. október. Hann varaði við því að mynduð yrði stjórn mið-hægrimanna og þeirra sem eru til hægri við þá eftir kosningarnar sunnudaginn 15. október.

„Áratugum saman hafa Austurríkismenn ekki staðið á jafn mikilvægum krossgötum,“ sagði kanslarinn á fundi í Vín: „Viljum við Austurríki þar sem þeir ríku verða ríkari og þar sem ráðist er að félagslega kerfinu, heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu? Eða viljum við Austurríki þar sem allir fá tækifæri?“

Kosningabaráttan hefur einkennst af hneykslum, mistökum og afsögnum. Straumurinn hefur verið óhagstæður fyrir Kern, fyrrverandi forstjóra austurrísku járnbrautanna, sem SPÖ sendi í kanslaraembættið í maí 2016.

Sebastian Kurz, utanríkisráðherra og formaður mið-hægriflokksins ÖVP.
Sebastian Kurz, utanríkisráðherra og formaður mið-hægriflokksins ÖVP.

Kannanir sýna að „wunderwuzzi“ (undrabarnið), Sebastian Kurz (31 árs) og mið-hægri flokkurinn, Austurrísk þjóðarflokkurinn (ÖVP), njóta meira en 30% fylgis.

Líklegast er talið að hann myndi stjórn með Frelsisflokknum (FPÖ) sem berst fyrir harðri útlendingastefnu. Hugsanlegt er að SPÖ verði þriðji stærsti flokkurinn.

Í stjórn ÖVP og FPÖ yrði Heinz-Christian Strache, formaður FPÖ, varakanslari. Nú eru 17 ár frá því að forveri hans, Jörg Haider, olli uppnámi innan ESB og hjá Ísraelum vegna setu í ríkisstjórn Austurríkis. Strache er sagður hafa hallast að ný-nazisma þegar hann var ungur að árum.

„Í sumum samfélögum erum að verða minnihlutahópur í eigin landi,“ sagði Strache (48 ára) á kosningafundi í Vín föstudaginn 13. október. „Losum okkur við þessa ríkisstjórn áður en austurríska þjóðin hverfur.“

Kurz gæti einnig myndað enn aðra „stóra samsteypustjórn“ með SPÖ. Sú sem nú kveður aflaði sér hins vegar óvinsælda og Kern og Kurz kemur augljóslega illa saman.

FPÖ hefur farið sömu leið og þýski flokkurinn Alternative füe Deutschland (AfD) og Þjóðfylking Marine Le Pen í Frakklandi og snúist gegn flóði farand- og flóttafólks til Evrópu með kröfu um harðari útlendingastefnu.

Strache gagnrýnir ESB eins og það er núna, hann sakar SPÖ og ÖVP um að hafa farið of langt til vinstri og hann vill aukið frjálsræði í efnahags- og atvinnumálum.

„Við verðum að lækka skatta til að fyrirtæki geti hagnast, fjárfest, tryggt og skapað störf,“ sagði Strache föstudaginn 13. október. „Við þurfum að hækka laun til að auðvelda fólkið lífið.“

Kurz var kjörinn formaður ÖVP í maí 2017 og flokkurinn breyttist í einskonar „hreyfingu“ í kringum hann og dró mikið fylgi frá FPÖ.

Kurz lofar að loka íslömskum leikskólum og lækka bætur til innflytjenda. Hann bendir á að leið farand- og flóttafólks til Austurríkis frá Balkanskaga hafi verið lokað vegna stefnu sinnar. Kurz lofar að lækka skatta og minnka opinbert reglufargan.

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …