
Útgönguspár í forsetakosningunum í Austurríki benda til þess að Alexander Van der Bellen (72 ára), fyrrv. hagfræðiprófessor og leiðtogi græningja, hafi verið kjörinn forseti landsins í kosningum sunnudaginn 4. desember.
Austurríska ríkissjónvarpið ORF sagði að allt benti til þess að Van der Bellen fengi 53,6%. Norbert Hofer (45 ára), verkfræðingi, frambjóðanda Frelsisflokksins er spáð 46,4%.
Hofer viðurkenndi ósigur eftir að fyrstu tölur birtust skömmu eftir að kjörstöðum var lokað klukkan 17.00 að íslenskum tíma. Hann sagðist á Facebook ekki ætla að deila við neinn um úrslitin en hann hefði orðið fyrir „óskaplegum vonbrigðum“. Hann hefði svo gjarnan viljað gæta hagsmuna Austurríkis.
Í erlendum fjölmiðlum eru úrslitin túlkuð á þann veg að Austurríkismenn hafi hafnað því að fara inn á sömu braut og Bretar með því að samþykkja úrsögn úr ESB og Bandaríkjamenn með því að kjós Donald Trump forseta. Í Austurríki var framganga popúlista stöðvuð segir The New York Times (NYT).
Blaðið segir að víða hafi verið litið á kosningarnar sem prófraun fyrir útlendingaandstæðinga, einkum and-múslima, sem hafi náð völdum í Ungverjalandi og Póllandi og vaxið ásmegin í Frakklandi og jafnvel Þýskalandi sem almennt sé talið helsta landið í vestri þar sem tekist hafi að stöðva framgang andstæðinga frjálslynds lýðræðis.
Jafnaðarmaðurinn Christian Kern, kanslari Austurríkis, óskaði Van der Bellen til hamingju með sigurinn: „Þetta er góður dagur fyrir Austurríki. Nú sameinumst við um að tryggja að enginn telji sig hafa tapað,“ sagði hann á Twitter.
Sigmar Gabriel, leiðtogi þýskra jafnaðarmanna, fagnaði úrslitunum og sagði „þungu fargi létt af Evrópu“. Rættust spárnar um úrslitin væri ljóst að Austurríkismenn hefðu tryggt öruggan sigur á „hægri popúlisma“.
Heimild: NYT og dw.de