Home / Fréttir / Aukinn fjárstuðningur til Úkraínu – brú til NATO-aðildar – viðbrögð Pútins – friðarráðstefna Úkraínustjórnar

Aukinn fjárstuðningur til Úkraínu – brú til NATO-aðildar – viðbrögð Pútins – friðarráðstefna Úkraínustjórnar


Frá fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna.

Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna luku tveggja daga fundi sínum í Brussel föstudaginn 14. júní með því að samþykkja langtímaaðstoð við Úkraínumenn í öryggismálum auk þess að leggja þeim lið við herþjálfun.

Fyrr í vikunni hitti Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, sem sagðist ekki beita sér gegn þessum stuðningi við Úkraínu en stjórn sín myndi ekki eiga aðild að honum.

Er nú talið að ekkert hindri að ríkisoddvitar NATO-landanna samþykki sameiginlegan sjóð um stuðning til Úkraínu undir forsjá NATO á fundi sínum í Washington í júlí.

Stoltenberg gerði tillögu um sjóðinn til að skapa festu í stuðningi við Úkraínu þegar deilur á Bandaríkjaþingi á liðnum vetri töfðu samþykkt 61 milljarðs dollara stuðnings sem fékkst að lokum. Þá drógust ákvarðanir á vettvangi Evrópusambandsins einnig vegna pólitísks ágreinings.

Jens Stoltenberg stjórnaði fundi varnarmálaráðherranna. Hann flutti tillögu sína með þeim rökum að það væri óviðunandi fyrir alla áætlanagerð um aðgerðir á vegum hers Úkraínu að óvissa ríkti um hvort eða hvenær vopn, skotfæri eða önnur aðstoð bærist þrátt fyrir loforð um hana.

Hann minnti á að bandalagsríkin hefðu frá því að innrásin í Úkraínu hófst í febrúar 2022 lagt fram um 40 milljarða evra á ári til hernaðarlegs stuðnings við varnir landsins. Lagði Stoltenberg til að svipuðum fjárstuðningi yrði að lágmarki fram haldið ár hvert eins lengi og þörf krefðist.

Brugðist við áreiti Rússa

Varnarmálaráðherrarnir ræddu aukið áreiti Rússa í garð einstakra NATO-þjóða og komust að samkomulagi um samhæfð viðbrögð við þessu atferli Rússa. Skipti og miðlun á trúnaðarupplýsingum verður aukin, vernd mikilvægra grunninnviða eykst, þar á meðal neðansjávar og í netheimum. „Áreiti Rússa verður ekki til að fæla okkur frá stuðningi við Úkraínu og við munum áfram vernda landsvæði okkar og íbúa gegn hvers kyns óvinveittri aðgerð,“ sagði framkvæmdastjóri NATO.

G7-stuðningur – tvíhliða samningur við Bandaríkjastjórn

Leiðtogar G7-ríkjanna komu saman í Puglia á Ítalíu 13. og 14. júní. Þeir samþykktu áætlun um 50 milljarða dollara lán til Úkraínu sem nýtt yrði til vopnakaupa og til að hefja endurreisn mannvirkja í landinu.

Vextir af nærri 300 milljörðum dollara frystum, rússneskum innistæðum að mestu í evrópskum bönkum, verða nýttir til að endurgreiða lánið.

Í tengslum við fundinn hitti Joe Biden Bandaríkjaforseti Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta og rituðu þeir undir 10 ára samning um stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu. Er honum ætlað að vera brú Úkraínu til aðildar að NATO. Þá var einnig ritað undir tvíhliða 10 ára samning milli Úkraínu og Japans um öryggismál en hann felur jafnframt í sér að Japanir veita Úkraínumönnum 4,5 milljarða dollara fjárstuðning.

Með tvíhliða samningnum vill Joe Biden gera sitt til að fullvissa bandamenn Bandaríkjanna um að Bandaríkjamenn haldi áfram stuðningi við Úkraínu jafnvel þótt Donald Trump verði kjörinn forseti í nóvember nk. Í samningnum eru þó ákvæði um að hvor aðili hans geti sagt honum upp með sex mánaða fyrirvara.

Friðartillaga Pútíns

Vladimir Pútin Rússlandsforseti steig föstudaginn 14. júní í fyrsta sinn það skref frá því að hann gaf fyrirmælin um innrás í Úkraínu að leggja opinberlega fram tillögu um hvernig ljúka megi átökunum.

Pútin flutti ræðu í utanríkisráðuneytinu í Moskvu og sagðist fús til að gefa fyrirmæli um tafarlaust vopnahlé og hefja viðræður við ráðamenn Úkraínu. Skilyrðin sem forsetinn setti eru hins vegar óaðgengileg að mati Úkraínustjórnar en efni þeirra hefur verið kynnt henni áður, til dæmis í friðaráætlun sem Xi Jinping Kínaforseti hefur kynnt: Úkraínustjórn verður að afsala sér ráðum yfir fjórum héruðum, Donetsk, Luhansk, Kherson og Zaporizjzja auk þess að hverfa frá áformum um aðild að NATO. Þá krefst Pútín þess að vestrið aflétti öllum þvingunum og refsiaðgerðum gegn Rússum. Í Kyív segja menn þetta fráleita tillögu.

Tímasetningu þessa fyrsta útspils Pútíns til samninga verður að skoða í ljósi fundanna sem getið er hér að ofan og ákvarðana þar um aukinn stuðning við Úkraínu til langs tíma og þess að laugardaginn 15. júní er friðarráðstefna í Sviss að frumkvæði Úkraínustjórnar.

Fulltrúar 92 ríkja verða á ráðstefnunni, þar af 52 þjóðhöfðingjar og 29 ráðherrar, auk fulltrúa átta alþjóðastofnana.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …