Home / Fréttir / Aukin harka í samskiptum Úkraínumanna og Rússa við Krímskaga – rússneski flotinn á æfingu

Aukin harka í samskiptum Úkraínumanna og Rússa við Krímskaga – rússneski flotinn á æfingu

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hyllir rússneska flotann í St. Pétursborg.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hyllir rússneska flotann í St. Pétursborg.

Meiri harka færist stig af stigi í orðaskipti ráðamanna í Moskvu og Kænugarði vegna deilna um Krím. Her Úkraínu hefur verið skipað að búa sig undir átök. Vladimír Pútín Rússlandsforseti kallaði þjóðaröryggisráð sitt saman til fundar fimmtudaginn 11. ágúst.

Rússar hafa boðað flotaæfingar á Svartahafi en bækistöð hans er á Krím-skaga.

Miðvikudaginn 10. ágúst sakaði Pútín Úkraínustjórn um að reyna að stofna til nýrra átaka um Krím-skaga sem Rússar innlimuðu vorið 2014.

Sveitir úr her Úkraínu takast á við aðskilnaðarsinna holla Rússum víðs vegar í austurhluta Úkraínu.

Petro Porosjenko Úkraínuforseti hefur gefið her Úkraínu fyrirmæli um að vera tilbúinn til átaka við Krímskaga.

Pútín hefur heitið því að Rússar grípi til gagnaðgerða gegn Úkraínumönnum sem hann sakar um að taka þátt í „hryðjuverkaárás“ á Krím-skaga.

Úkraínumenn segja að þetta sé rangt hjá Pútín og beri þess merki að leitað sé að tylliástæðu til að auka spennuna á svæðinu í aðdraganda beinna átaka. Saka þeir forsetann um að ýta undir ótta við átök til að styrkja stöðu sína í friðarviðræðum sem ekki hafi verið slitið. Þá vilji hann einnig ýta undir þjóðernistilfinningar í von um að það styrki stöðu flokks hans í þingkosningunum í Rússlandi í september.

Frá Washington berast fréttir um að stjórnvöld þar hafi „ofuráhyggjur“ af ástandinu og hvetji deilu aðila til að halda aftur af sér.

Ríkisstjórn Bretlands undir forsæti Theresu May hefur tekið mildari afstöðu til Rússa og Vladimírs Pútins en ríkti undir forsæti Davids Camerons. May hefur lagt drög að fundi með Pútín og Boris Johnson utanríkisráðherra hefur búið í haginn fyrir viðræður við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa. Fer Johnson mildari orðum um Rússa en Philip Hammond, forveri hans sem utanríkisráðherra, núverandi fjármálaráðherra Breta.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …