Home / Fréttir / Áttatíu ríki segja viðurkenningu landsyfirráðaréttar grundvöll varanlegs friðar í Úkraínu

Áttatíu ríki segja viðurkenningu landsyfirráðaréttar grundvöll varanlegs friðar í Úkraínu

Þatttakendur í friðarráðstefnunni í Bürgenstock.

Fulltrúar 80 ríkja hvöttu sunnudaginn 16. júní til þess að „landsyfirráðaréttur“ (e. territorial integrity) Úkraínu yrði lagður til grundvallar við gerð friðarsamnings til að binda enda á stríð Rússa gegn Úkraínumönnum.

Með orðinu landsyfirráðaréttur er vísað til þeirra ákvæða í alþjóðalögum sem mæla gegn því að þjóðríki styðji aðskilnaðarhreyfingar innan annars ríkis eða reyni að knýja fram breytingar á landamærum annarra þjóðríkja hvað þá heldur beiti valdi til að breyta landamærum.

Tveggja daga friðarráðstefnu um Úkraínu í Bürgenastock í Sviss lauk 16. júní með sameiginlegri yfirlýsingu þar sem þetta meginsjónarmið er meðal annars áréttað. Úkraínustjórn beitti sér fyrir ráðstefnunni sem Svisslendingar tóku að sér að halda. Rússum var ekki boðið að senda þangað fulltrúa og þar með sátu Kínverjar heima. Brasilía sendi áheyrnarfulltrúa.

Í yfirlýsingu mikils meirihluta þátttakenda á fundinum, sem voru um 100, segir að þar hafi verið rætt um ýmsar leiðir til að skapa víðtækan, réttlátan og varanlegan frið á grundvelli alþjóðalaga, þar á meðal sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sérstaklega er áréttað ekki skuli ógnað með valdbeitingu gegn landsyfirráðarétti eða stjórnmálalegu sjálfstæði nokkurs ríkis. Virða beri grundvallarreglur fullveldis, sjálfstæðis og landsyfirráðaréttar allra ríka, þar á meðal Úkraínu, innan landamæra sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar, þar á meðal landhelgi, og leysa beri úr deilum eftir friðsamlegum leiðum í samræmi við meginreglur alþjóðalaga.

Þá eru nefnd þrjú sérgreind lykilatriði:

  • Í fyrsta lagi verði að tryggja öryggi við notkun kjarnorku og kjarnorkuvera og virða öryggis- og umhverfisreglur. Ekki megi ógna með beitingu kjarnavopna í stríðinu gegn Úkraínu.
  • Í öðru lagi er bent á að hnattrænt fæðuöryggi sé reist á því að hindrunarlaust sé unnt að framleiða og flytja fæðu til þeirra sem þarfnist hennar. Í þessu skyni verði að tryggja öruggar ferðir flutningaskipa til og frá höfnum við Svartahaf og Azovhaf. Það sé óásættanlegt að ráðist sé á flutningaskip í höfnum eða á siglingu og sama gildi um árásir á borgaralegar hafnir og hafnarmannvirki. Það megi ekki á neinn hátt beita fæðuöryggi í hernaðarlegum tilgangi. Tryggja verði að landbúnaðarvörur frá Úkraínu berist eftir öruggum og frjálsum leiðum til þriðju ríkja.
  • Í þriðja lagi segir að sleppa beri öllum stríðsföngum í fullkomnum fangaskiptum. Þá verði að leyfa öllum börnum sem hafi verið numin ólöglega á brott eða flutt nauðug frá Úkraínu og öllum öðrum úkraínskum borgurum í ólögmætu haldi að snúa aftur til Úkraínu.

Lýst er þeirri trú að til að ná friði verði að stofna til samtals milli allra aðila. Þess vegna hafi þeir sem að ályktuninni standa ákveðið að stíga í framtíðinni ákveðin skref á ofangreindum þremur sviðum með frekari þátttöku fulltrúa allra aðila.

„Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal grundvallarreglurnar um virðingu fyrir landsyfirráðarétti og fullveldi allra ríkja, getur og mun verða grundvöllur fyrir að ná víðtækum, réttlátum og varanlegum friði í Úkraínu,“ segir í lok ályktunarinnar.

Fulltrúar Indlands, Sádí Arabíu, Indónesíu, Suður-Afríku, Tælands, Mexíkó, Armeníu, Bahrein, Kólumbíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna rituðu ekki undir lokaályktunina.

Í fundarsal í Bürgenstock.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sótti friðarráðstefnuna fyrir Íslands hönd. Í frétt forsætisráðuneytisins segir að í ræðu sinni á fundinum hafi forsætisráðherra sagt að friðaráætlun Úkraínuforseta væri skýr og réttlát leið að varanlegum friði í Úkraínu.

„Ísland styður af fullum krafti við Úkraínu og friðaráætlunina. Þessi stuðningur hefur verið ítrekaður með nýlegri ályktun Alþingis og undirritun tvíhliða samnings um stuðning Íslands við Úkraínu,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …