Home / Fréttir / Átök í áströlskum stjórnmálum

Átök í áströlskum stjórnmálum

Þinghúsið í Canberra, höfuðborg Ástralíu.
Þinghúsið í Canberra, höfuðborg Ástralíu.

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Talsverð ólga hefur verið í stjórnmálum í Ástralíu að undanförnu.  Þetta má ráða af því að á síðustu ellefu árum hafa sex karlar og konur setið í stóli forsætisráðherra í landinu.  Til að setja hlutina í samhengi þá voru aðeins þrír forsætisráðherrar þar, Bob Hawke, Paul Keating og John Howard, á árunum 1983 – 2007.  Nýjasti forsætisráðherra landsins tók við þann 24. ágúst og heitir hann Scott Morrison.  The Economist, New York Times og BBC fjalla um áströlsk stjórnmál í nýjustu útgáfum sínum.

Í Ástralíu berjast tveir flokkar um völdin.  Annars vegar  Verkamannaflokkurinn (e. Labour Party) sem er jafnaðarmannaflokkur og hins vegar  Frjálslyndir (e. Liberal Party) sem er mið-hægri flokkur.  Flokkarnir tveir, ásamt ýmsum smærri flokkum, berjast um 150 sæti í fulltrúadeild ástralska þingsins sem situr í Canberra höfuðborg landsins.  Í þinginu er líka öldungadeild og sitja þar 76 þingmenn en hvert hinna sex fylkja Ástralíu hefur 12 fulltrúa í deildinni og auk þess hafa sérstjórnarsvæðin tvö í landinu (e. Australian Capital Territory og Northern Territory) tvo þingmenn hvort.  Sumum kann að þykja þetta frekar fáir þingmenn í landi sem er nánast sér heimsálfa en ekki má gleyma því að þó að Ástralía sé svo til jafn stór og Bandaríkin (fyrir utan Alaska og Hawaii) búa aðeins um 25 milljónir manna í landinu enda er það að stórum hluta eyðimörk.

Minnst var á hvað forsætisráðherrar hafa setið stutt í embætti í Ástralíu á undanförnum árum.  Á þessu eru fjórar skýringar.  Sú fyrsta er sú að kjörtímabil í landinu eru óvenjulega stutt eða aðeins þrjú ár og oft er boðað til þingkosninga þó kjörtímabili sé ekki lokið.  Þetta þýðir að stjórnmálamenn þurfa sífellt að hugsa um að koma sér á framfæri nokkuð sem m.a. er hægt með því að næla sér í leiðtogasæti.  Önnur ástæðan er sú, a.m.k. að mati sumra, að ýmsir fréttamiðlar eru orðnir öflugur þrýstihópur sem geta haft áhrif á hve lengi forsætisráðherra er sætt í embætti.  Einnig hefur áhrif að kosningakerfið í Ástralíu og lög sem skylda alla til að kjósa stuðlar að tveggja flokka kerfi í þar sem Verkamannaflokkurinn og Frjálslyndir skiptast á um að verma valdastólana.  Kerfið skapar öryggistilfinningu hjá þingmönnum flokkanna tveggja, þess vegna treysta þeir sér til að stofna til ýmissa ævintýra líkt og að reyna að velta eigin flokksformanni af stóli.  Loks hefur því verið haldið fram að forsætisráðherrar Ástralíu á undanförnum áratugum hafi ekki verið miklir mannkostamenn.  Það eru því alltaf einhverjir óánægðir með stöðu mála og tilbúnir til að reyna að koma leiðtoganum frá völdum.

Greina má ýmsa af þeim þáttum sem minnst hefur verið á í atburðarásinni í Canberra nú í vikunni.  Fráfarandi forsætisráðherra, Malcolm Turnbull, komst til valda árið 2015 er hann tók þátt í hallarbyltingu og velti Tony Abbott úr sessi.  Turnbull þurfti að kljást við margvísleg vandamál í stjórnartíð sinni ekki síst vegna þess að þingmeirihluti stjórnarinnar veltur á einu atkvæði.  Óánægjan með forsætisráðherrann kom ekki síst úr hans eigin flokki. Þegar hann lagði fram umdeilt orkufrumvarp höfðu íhaldsmenn í flokknum fengið nóg og einn helsti leiðtogi þeirra, Peter Dutton, skoraði forsætisráðherrann á hólm.  Dutton tapaði leiðtogakjörinu en hann neitaði að sætta sig við úrslitin og fékk þingmenn flokksins til þess að krefjast nýrrar atkvæðagreiðslu.  Þá sá Turnbull sæng sína upp reidda og ákvað að segja af sér.  Fjármálaráðherrann, Scott Morrison, tekur nú við embætti forsætisráðherra.  Hann hefur verið talinn í frjálslyndari armi Frjálslynda flokksins þótt ekki vilji reyndar allir skrifa upp á það.

Óvíst er hvað Morrison situr lengi í forsætisráðherraembættinu. Kosið verur til þings í Ástralíu í maí á næsta ári.  Það er ekki einu sinni öruggt að hann sitji svo lengi, Turnbull hefur boðað að hann ætli að segja af sér þingmennsku , tapi Frjálslyndir aukakosningunni um sæti hans fellur meirihluti þeirra á þingi og þar með stjórnin.  Það verður því engin lognmolla í áströlskum stjórnmálum á næstu mánuðum.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …