Home / Fréttir / Átök forseta og ríkisstjórnar Moladavíu vegna ráðherraembætta

Átök forseta og ríkisstjórnar Moladavíu vegna ráðherraembætta

Igor Dodon, forseti Moldavíu.
Igor Dodon, forseti Moldavíu.

Igor Dodon, forseti Moldavíu, hallur undir Rússa, hafnar niðurstöðu stjórnlagadómstóls landsins sem hefur leyst hann tímabundið frá embætti vegna ágreinings forsetans og ríkisstjórnarinnar um skipan ráðherra í ríkisstjórn andstæðinga sinna sem eru hlynntir samstarfi við Vesturlönd.

„Dómstóllinn hefur enn einu sinni staðfest ímynd sína sem stimpill í höndum stjórnmálamanna en ekki stjórnskipuleg stofnun. Þetta er til skammar og sorglegt fyrir ríki sem telur sig vera lýðræðislegt,“ sagði Dodon á Facebook og hét því að „gefast ekki upp“.

Forsetinn neitaði tvisvar sinnum að samþykkja tillögu Pavels Filips um nýja ráðherra við uppstokkun á ríkisstjórninni. Dodon sagði að ráðherraefni forsætisráðherrans væru óhæf og sakaði sum þeirra um að vera tengd alkunnu hneykslismáli sem snýst um að um einum milljarði dollara hafi verið laumað út úr bankakerfi Moldavíu.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru að fara þess á leit við stjórnlagadómstólinn að leysa forsetann frá störfum tímabundið svo að unnt yrði að skipa mennina í ríkisstjórn.

Þriðjudaginn 2. janúar ákvað dómstóllinn að að verða við kröfu ríkisstjórnarinnar.  Kemur í hlut þingforseta að verða staðgengill forsetans en forsætisráðherrann taldi sér ekki fært að setjast í forsetastólinn til að samþykkja eigin tillögu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem árekstur verður milli forsetans og forsætisráðherrans sem vill nánari tengsl við ESB og Bandaríkin.

Í desember kallaði ríkisstjórnin fulltrúa sinn í Rússlandi heim til skrafs og ráðagerða. Sakaði stjórnin ráðamenn í Moskvu um að ögra embættismönnum frá Moldavíu og láta athugasemdir stjórnvalda þar sem vind um eyru þjóta.

Í mars 2017 kölluðu Filip forsætisráðherra og Andrian Candu þingforseti rússneska sendiherrann í Moldavíu á sinn fund og mótmæltu að þeirra mati hrottafenginni aðför ónefndra rússneskra öryggislögreglumanna að embættismönnum Moldavíu.

Í maí lýsti Filip fimm rússneska stjórnarerindreka brottræka frá Moldavíu.

Candu þingforseti afgreiðir nú tillögu forsætisráðherrans um nýju ráðherrana eins og hann gerði 20. október 2017 þegar stjórnlagadómstóllinn greip til þess að veita forsetanum tímabundna lausn eftir að hann neitaði tvisvar að samþykkja tillögu forsætisráðherrans um nýjan varnarmálaráðherra.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …