Home / Fréttir / Atlantshafsherstjórn NATO tekur formlega til starfa í Norfolk

Atlantshafsherstjórn NATO tekur formlega til starfa í Norfolk

Kilippt var á borða til að staðfesta fromlega að Atlantshafsherstjórnin tæki til starfa.
Kilippt var á borða til að staðfesta fromlega að Atlantshafsherstjórnin tæki til starfa.

Ný Atlantshafsherstjórn NATO tók formlega til starfa í Norfolk í Virginiuríki í Bandaríkjunum fimmtudaginn 17. september. Hlutverk hennar er að tryggja öryggi og varnir siglingaleiða yfir Norður-Atlantshafs, í GIUK-hliðinu og norður í Íshaf. Fyrri Atlantshafsherstjórn NATO í Norfolk var lokað árið 2003. Nú heitir hún á ensku Joint Force Command Norfolk en hét áður Supreme Allied Commander Atlantic.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, fagnaði þessum áfanga við að treysta flotavarnir NATO. Hann sagði að nýja Atlantshafsherstjórnin tryggði öryggi á siglingaleiðinni frá Norður-Ameríku til Evrópu, flutningaleið lífsnauðsynlegs liðsauka á hættustundu.

Við hlið NATO-herstjórnarinnar starfar yfirstjórn 2. flota Bandaríkjanna en Andrew Lewis flotaforingi fer fyrir henni.

Hlutverk herstjórnarinnar er að gera áætlanir, undirbúa og stofna til aðgerða í lofti á láði og legi á risastóru svæði frá austurströnd Bandaríkjanna norður fyrir hliðið sem kennt er við Grænland, Ísland og Bretland, GIUK-hliðið, og í Íshafinu fyrir norðan Evrópu, segir í tilkynningu NATO. Sameinaða flotastjórnin, Allied Maritime Command, MARCOM, í Bretlandi fer áfram með aðgerðastjórn frá degi til dags á vegum NATO.

Timothy Choi, flotasérfræðingur við kanadísku hugveituna Canadian Global Affairs Institute, sagði við kanadíska útvarpið að Atlantshafsherstjórnin kæmi ekki að skipulagi varna í Íshafinu fyrir norðan Norður-Ameríku, það væri tvíhliða verkefni Bandaríkjamanna og Kanadamanna innan North American Aerospace Defense Command (NORAD).

Andrea Charron, sem stjórnar Centre for Defence and Security Studies við Manitoba-háskóla, sagði að litið væri á GIUK-hliðið sem helstu siglingaleiðina úr Norður-Atlantshafi norður í Íshafið og öfugt.

„Í kalda stríðinu urðum við að fylgjast mjög náið með hliðinu til að átta okkur á ferðum Sovétmanna,“ sagði Charron. „Eftir að kalda stríðinu lauk hvarf NATO frá þessum slóðum þar sem ekki var talið eins brýnt og áður að halda þar uppi eftirliti eftir að Rússneska sambandsríkið kom til sögunnar.“

Choi sagði að undanfarna tvo áratugi hefði NATO haldið úti tveimur sameiginlegum herstjórnum í austur- og suðurhluta Evrópu fyrir utan Afganistan. Þá hefði verið lítil þörf fyrir brigða- og liðsflutninga yfir Atlantshaf.

Nú hefði staðan hins vegar breyst á þann veg að hlutfallslega mikill fjöldi rússneskra kafbáta færi um GIUK-hliðið og inn á Atlantshaf, teldi NATO að þegar fram liðu stundir kynni siglingaleiðinni að verða ógnað og þess vegna yrði að samræma aðgerðir ríkja beggja vegna Atlantshafs.

Charron segir að líta verði á tilkomu Atlantshafsherstjórnarinnar í tengslum við endurreisn 2. flota Bandaríkjanna, Atlantshafsflotans. Þar sé að finna meginstyrk herstjórnarinnar.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …