Home / Fréttir / Atlantshafsfloti Bandaríkjanna tilbúinn til aðgerða

Atlantshafsfloti Bandaríkjanna tilbúinn til aðgerða

uss_theodore_roosevelt_carrier_strike_group

Bandaríska flotastjórnin tilkynnti formlega þriðjudaginn 31. desember 2019 að 2. flotinn, Atlantshafsflotinn, með heimahöfn í Norfolk í Virginuríki væri að fullu tekinn til starfa. Boðað var í maí 2018 að flotinn yrði endurvakinn en hann var aflagður innan bandaríska flotans árið 2011.

Verkefni flotans er stunda eftirlit og sinna aðgerðum á Atlantshafi og norðurslóðum auk þess að stjórna þjálfun manna fyrir allar deildir bandaríska flotans í stöðvum á austurströnd Bandaríkjanna. Með tilkynningu sinni staðfestir flotastjórnin að stjórnkerfi Atlantshafsflotans sé fullmannað og starfhæft í þágu þeirra verkefna sem falla undir flotann.

Andrew Lewis aðmíráll, yfirmaður Atlantshafsflotans, minnti af þessu tilefni á mikilvægi siglingaleiðanna yfir Norður-Atlantshaf og þá væru siglingaleiðir í Norður-Íshafi að opnast. Allt leiddi þetta til sífellt meiri umsvifa á athafnasvæði flotans sem yrði að geta tekist á við ný verkefni.

Ákvörðunin um að 2. flotinn yrði aflagður árið 2011 var reist á því að flotaumsvif Rússa á Norður-Atlantshafi væru úr sögunni. Meginrökin fyrir því að endurvekja Atlantshafsflotann eru að óhjákvæmilegt sé að bregðast við flotaumsvifum Rússa.

Í fyrra stjórnaði flotastjórn 2. flotans árlegum æfingum á Eystrasalti. Segir í frétt um þáttaskilin í starfsemi flotans nú að í tengslum við Eystrasaltsæfinguna hafi verið sett upp stjórnstöð til bráðabirgða í Keflavík og vegna aukinnar kafbátasiglinga Rússa í nágrenni Íslands hafi kafbátaleit aukist frá Keflavíkurflugvelli.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …