
Í umræðum um skýrslu Roberts Owens, fyrrv. yfirréttardómara í Bretlandi, um morðið í London á Alexander Litvinenko, landflótta fyrrverandi öryggislögreglumanni í Rússlandi, hefur verið vakin athygli á hve mikla áherslu Owen leggur á að upplýsa sem mest um sprengjuárásir á fjölbýlishús í Moskvu 1999 þar sem 300 manns týndu lífi. Árásirnar voru undanfari þess að Pútín varð forseti Rússlands.
Á vefsíðu The Wall Street Journal birtist föstudaginn 22. janúar grein eftir Holman W. Jenkins jr. þar sem hann bendir á að í mörgum fjölmiðlum hafi frásagnar Owens af þessu voðaverki ekki verið getið. Í skýrslunni nefnir Owen bókina Blowing Up Russia – Að sprengja Rússland í loft upp – eftir Litvinenko sem lykilástæðu fyrir morðinu á honum. Í bókinni er sökinni vegna árásarinnar skellt á öryggisstofnanir Rússlands. Owen dómari segir bókina ekki aðeins „afrakstur nákvæmrar rannsóknar“ heldur leggur hann lykkju á leið sína til að tíunda morðin, dularfullu dauðsföllin og handtökur annarra sem reyndu að rannsaka þessar sprengjuárásir.
Jenkins vekur athygli á að sprengjuárásunum, sem voru tíðar áður fyrr í Rússlandi, lauk allt í einu eftir að rússneskir öryggislögreglumenn voru staðnir að því að koma sprengjum fyrir í fjölbýlishúsi í borginni Rjazan. Ráðamenn í Moskvu sögðu síðar að um æfingu hefði verið að ræða.
Jenkins segir að ríkisstjórnir Vesturlanda hafi undanfarin ár ekki beint athygli að sprengjuárásunum fyrir 16 árum. Garry Kasparov skákmeistari segi í bók um Pútin sem kom út í fyrra: „Ef þær [vestrænar ríkisstjórnir] viðurkenndu sannleikann, yrðu þær að bregðast við honum en enginn vill gera neitt … Þessi skrípaleikur skiptir sérstaklega miklu máli þegar manni finnst óhjákvæmilegt að láta eins og illvirkinn sé bandamaður og gangi fram í góðri trú.“
Holman W. Jenkins jr segir:
„Vegna hagsmuna einstakra ríkja kann að mega skilja aðgerðarleysi ráðamanna á Vesturlöndum en það hefur verið keypt dýru verði. Pútín hefur fengið að komast upp með þetta allt, hann hefur gengið á lagið með því að taka áhættu eins og með því að afhenda aðskilnaðarsinnum í Úkraínu mjög öflugar skotflaugar sem sendar voru gegn flugvélum yfir höfðum þeirra.“
Minnt er á að stjórn Pútíns hafi fengið tækifæri til að hagnast á innleiðingu Rússlands í efnahagskerfi heimsins, hún hafi sölsað undir sig mikið af olíutekjunum. Hagfræðingurinn Anders Aslund hafi lýst þessu sem „mestu spillingarsögu mannkynssögunnar“.
Í valdatíð Pútíns hafi aðalatriðið ekki verið að tryggja öryggi og virðingu rússnesku þjóðarinnar eins og á tíma Péturs mikla og Katrínar miklu. Meginverkefnið hafi verið að tryggja Pútín völd svo að hann og klíkubræður hans þyrftu ekki að svara til saka eða þola eitthvað enn verra af hendi þeirra sem á eftir kæmu þegar þeir reyndu að sanna sig og öðlast lögmæti.
Holman W. Jenkins jr segir:
„Engar líkur eru á að Pútin muni njóta hamingjuríkra eftirlaunaára. Hann situr uppi með aðferðina sem beitt var til að koma honum til valda, einkum Rjazan, og hann hefur markvisst sniðið þróunina í Rússlandi frá Sovét-tímanum að eigin vernd. Hann getur enn vonað að honum hlotnist blessunarlega eðlilegur dauðdagi á undan afleiðingum eigin gerða, það var reyndar ólíklegt að Rjazan hefði sofnað svefninum langa. Sama má segja um morðið á Litvinenko.“