
Í Ástralíu hefur verið kynnt 17 mínútna langt myndskeið þar sem aðskilnaðarsinnar hollir Rússum í austurhluta Úkraínu gramsa í braki MH 17 flugvélarinnar og lýsa undrun þegar þeir átta sig á að um farþegavél er að ræða. Myndskeiðið var sýnt í tilefni af því að hinn 17. júlí var eitt ár liðið frá því að flugvélin frá Malaysia Airlines var skotin niður yfir Austur-Úkraínu, landsvæði á valdi aðskilnaðarsinna. Á því má að því er virðist sjá augnablikið þegar mennirnir átta sig á að þetta sé ekki vél flughers Úkraínu heldur farþegavél.
Aðskilnaðarsinnar tóku myndina sjálfir á farsíma og kann hún að staðfesta það sem sagt hefur verið frá upphafi að vélin með 298 menn um borð hafi verið skotin niður vegna misskilnings ódæðismannanna sem töldu sig vera að granda Sukhoi-orrustuþotu flughers Úkraínu.
Fréttastofan News Corp. Australia sagði hinar einstöku myndir hafa verið teknar af aðskilnaðarsinnunum og þeim hafi fyrst verið smyglað frá Donetsk í þessari viku eftir margra mánaða tilraunir til að nálgast þær.
Myndskeiðið er sagt sýna ferð sérstaks hóps á vegum aðskilanaðarsinna sem var sendur til Donetsk til að leita að úkraínskum herflugmönnum sem talið var að hefðu svifið til jarðar í fallhlífum eftir að orrustuþotu þeirra hefði verið grandað með flugskeyti.
Bútar úr þessu myndskeiði birtust á BBC fljótlega eftir að flugvélin fórst.
Í frétt News Corp. segir á einum stað sjáist maður sem greinilega beri einkennismerki Alþýðulýðveldisins Donetsk um hálsinn – alþýðulýðveldið varð til með einhliða yfirlýsingu aðskilnaðarsinna.
Á myndinni sjást vopnaðir menn í feluklæðum hermanna og ganga þeir fram og aftur um rjúkandi flak vélarinnar. Það heyrist að þeir ræða saman um að þeir verði að finna úkraínsku flugmennina og lýsa síðan undrun og það kemur á þá fát þegar þeir átta sig á að um flugvél með borgaralega farþega er að ræða.
„Hún er borgaraleg!“ segir foringinn. Síðan fylgir þessi upplýsandi játning: „Þeir [stjórnstöðin] segja að Sukhoinn hafi grandað borgaralegu vélinni en okkar grönduðu orrustuvélinni.“
Aðskilnaðarsinnarnir tala bæði rússnesku og úkraínsku og velta fyrir sér hver hafi leyft farþegavél að fljúga yfir Úkraínu. Það heyrist að ótilgreindur foringi fær boð frá stjórnendum aðskilnaðarsinnanna sem sýna að þeir vilja vita hvað sé að gerast.
Mennirnir í flakinu eru hissa og þeim er brugðið þegar þeir finna líkamsleifar almennra borgara og farangur sem sýnir að þeir koma frá Ástralíu og Malasíu. Þótt aðstæður séu hörmulegar má sjá mennina róta í farangri, safna símum, peningaveskjum og öðrum verðmætum.
Julie Bishop, utanríkisráðherra Ástralíu, sagði í sjónvarpsviðtali: „Það vekur viðbjóð að sjá þetta og það er mikið og alvarlegt umhugsunarefni að þetta skuli fyrst koma fram 12 mánuðum eftir að MH 17 var grandað. Þetta kemur hins vegar alveg heim og saman við það sem greiningarstofnanir sögðu okkur fyrir 12 mánuðum, að MH 17 frá Malaysia Airlines hefði verið grandað með flugskeyti sem skotið var frá jörðu.“
Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu, sagði að myndirnar sýndu að um hreint grimmdarverk hefði verið að ræða og að aðskilnaðarsinnar hefðu ætlað „að skjóta niður hlut sem þeir vissu að var stór flugvél“.
Abbott sagði í samtali við ABC TV engan vafa í sínum huga að flugvélin hefði verið skotin niður með flugskeyti af landi og það hefði komist í hendur aðskilnaðarsinna frá Rússlandi, þeir fengju ekki slík vopn „fyrir slysni“, þetta hefði augljóslega verið „mjög háþróaður vopnabúnaður“. Hann sagði:
„Við erum sannfærð um að um var að ræða vopnabúnað sem fluttur var yfir landamærin frá Rússlandi, hann var notaður sem skotpallur og fluttur skömmu síðar aftur til Rússlands eftir að ljóst varð hvað gerðist.“
Flestir farþeganna voru frá Hollandi, um borð voru einnig 38 Ástralíubúar auk fjölmargra frá Malasíu. Allir farþegar og áhöfn fórust.
Rússar neita allri aðild að árásinni á vélina og saka flugher Úkraínu um að hafa grandað henni. News Corp. segir að fólki í nágrenni við flak vélarinnar hafi verið skipað að segjast hafa séð orrustuþotu skjóta niður vélina.
Um þessar mundir vinna rannsóknarlögreglumenn frá Ástralíu, Belgíu, Hollandi, Malasíu og Úkraínu að sakamálarannsókn á slysinu.
Heimild RFE/RL dpa, AFP, The Australian og Sydney Daily Telegraph