
Hörð orðaskipti hafa átt sér milli ráðamanna í Ekvador og Julians Assange stofnanda WikiLeaks.
Lenin Moreno hefur gripið til varna fyrir ákvörðun sína um að svipta Assange hælisvernd í fyrri viku sem leiddi til þess að hann var fluttur úr sendiráði Ekvadors í London af bresku lögreglunni.
Moreno segir að Assange hafi „hvað eftir annað brotið gegn hælisskilyrðum“. Forsetinn vísaði til þess að Assange hefði verið óþriflegur og tók þar undir orð Mariu Paulu Romeo innaríkisráðherra. Lenin Moreno tók einnig fram að enginn annarrar þjóðar maður hefði haft áhrif á þá ákvörðun að rjúfa hælisvernd stofnanda Wikileaks. Ákvörðunin hefði ráðist af „brotum Assange sjálfs“.
Lögfræðingar Assange andmæla þessum fullyrðingum og segja að stjórnvöld í Ekvador hafi „birt forkastanlegar ásakanir undanfarna daga til að réttlæta það sem var ólögmæt og furðuleg ákvörðun um að leyfa bresku lögreglunni að koma inn í sendiráðið“. Þá hefði ótti Assange um að hann yrði framseldur til Bandaríkjanna reynst á rökum reistur eftir að ásakanir birtust um að hann hefði gerst sekur um samsæri til að ráðast inn tölvur bandaríska varnarmálaráðuneytisins.
Assange kann að verða dæmdur í allt að tólf mánaða fangelsi fyrir að brjóta gegn breskum dómi um framsal til Svíþjóðar með því að leita skjóls í sendiráði Ekvadors árið 2012. Hann er nú í haldi í Belmarsh-fangelsinu í London. Nú býr hann sig undir að berjast gegn kröfu um framsal til Bandaríkjanna.