
Forsetar Rússlands og Tyrklands deildu á Parísarráðstefnu um loftslagsmál vegna árásar Tyrkja á rússneska orrustuþotu hinn 24. nóvember. Valdimír Pútín Rússlandsforseti sagði mánudaginn 30. nóvember að Rússar hefðu sannanir fyrir því að þotunni hefði verið grandað af Tyrkjum til að verja olíuviðskipti þeirra við Ríki íslams (RÍ) og Tyrkir fengju mikið magn olíu frá RÍ. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti mótmælti þessum áburði sem dylgjum og hann mundi afsala sér embætti reyndist fótur fyrir ásökunum Pútíns. Bandaríkjaforseti vill efla hernaðarlegt samstarf við Tyrki.
Pútín sagði: „Við höfum rökstudda ástæðu til að trúa því að ákvörðun um að skjóta niður flugvél okkar hafi verið tekin til að tryggja öryggi olíuflutningaleiða til Tyrklands, til hafnanna þar sem henni er dælt um borð í olíuskip.“
Pútín sagði að í samtölum sínum við aðra þjóðarleiðtoga á ráðstefnunni í París hefðu flestir viðmælanda sinna sagt að það hefði ekki verið nauðsynlegt að ráðast á Su-24 sprengjuvélina til að tryggja öryggi Tyrklands.
Rússlandsforseti sagð árásina á vélina „mikil mistök“ hvort sem fyrirmælin um það bárust frá Erdogan eða ekki. Pútín sagði:
„Frá Tyrkjum hefur heyrst að forsetinn hafi ekki tekið þessa ákvörðun, aðrir hafi gert það. Í okkar augum skiptir það engu, mestu skiptir að tveir hermanna okkar féllu vegna þessa glæpaverks.“
Hann sagði að hvað sem liði árásinni á vélina mundu Rússar vinna að því að mynda breiða, alþjóðlega samstöðu gegn RÍ. Hann harmaði versnandi samskipti Rússa og Tyrkja. „Það er harmsefni fyrir okkur öll og sérstaklega fyrir mig persónulega vegna þess hve mikið ég hef lagt mig fram í langan tíma um að styrkja tengslin við Tyrki,“ sagði Pútín.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti sagði í yfirlýsingu í París að Tyrkir myndu leggja sig fram í baráttunni gegn RÍ og beita öllum ráðum í þeirri baráttu. Hann mundi segja af sér embætti yrði sannað að Tyrkir hefðu keypt olíu af RÍ. „Jafnskjótt og fullyrðing um þetta er sönnuð mun heiður þjóðarinnar krefjast þessa [af mér].“
„Ég mun ekki sitja áfram í þessu embætti [sannist þetta]. Ég spyr hins vegar hr. Pútín, mundir þú sitja áfram?¨ spurði Tyrklandsforseti og hvatti Rússlandsforseta til að skýra kaup Rússa á olíu frá RÍ.
Hann sagði að rússnesk-sýrlenskur ríkisborgari hefði keypt olíu frá RÍ og síðan selt hana til Sýrlandsstjórnar Assads forseta, skjólstæðings Rússa. Þetta hefðu Bandaríkjamenn einnig sannreynt. „Þeir [Rússar] ættu fyrst að gera grein fyrir þessu,“ bætti hann við.
Það væri „ósiðlegt“ af Rússum að bera ósannaðar ásakanir á borð. Tyrkir keyptu aðeins olíu frá „þekktum“ seljendum: „Við kaupum frá Rússlandi, Íran, Azerbaidjan, Qatar og Nígeríu. Við sættum okkur ekki við dylgjur um þetta.“
Tyrkneskir embættismenn hafa kynnt hljóð- og myndupptökur til að sanna að rússneska Su-24 þotan braut gegn lofthelgi Tyrklands þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir.
Recep Tayyip Erdogan og Barack Obama Bandaríkjaforseti hittust á fundi þriðjudaginn 1. desember í París. Obama sagði að þeir hefðu rætt leiðir til að koma á „eðlilegu“ ástandi milli Tyrkja og Rússa.
Bandaríkjaforseti áréttaði að Tyrkir hefðu rétt til sjálfsvarnar og hét Tyrkjum stuðningi Bandaríkjamanna við að gæta „öryggis Tyrklands og fullveldis“. Hann sagði Bandaríkjamenn hafa mikinn áhuga á að treysta hernaðarleg tengsl sín við Tyrki.
William Engdahl, sérfæðingur í olíuviðskiptum, birti hinn 24. nóvember grein á vefsíðunni New Eastern Outlook (NEO) þar sem hann fullyrðir meðal annars að Bilal Erdogan, sonur Tyrklandsforseta, eigi skipafélög og hafi samið við evrópsk fyrirtæki um að flytja olíu sem stolið hafi verið í Írak til ýmissa Asíulanda. Tyrkneska ríkisstjórnin kaupi ránsolíu frá Írak. Skipafélög Bilals Erdogans eigi sérstök legupláss í höfnunum í Beirút og Ceyhan og þaðan sé flutt olía, sem RÍ hafi smyglað, með skipum til Japans.