
Fréttamiðlar sem fá beint eða óbeint fjármagn frá rússneskum stjórnvöldum hafa eitt markmið og aðeins eitt markmið, viðurkennir Margarita Simonojna Simonjan, áhrifamikil aðalritstjóri rússnesku útvarpsstöðvarinnar RT og ríkisfyrirtækisins Rossija Segodnja sem rekur fjölþættu Sputnik-fjölmiðlana. Hún lýsti markmiði starfa sinna á skýran hátt í nýlegu samtali í sjónvarpsþættinum Pravo Znat þar sem hún talaði um nýja heimsmynd sem kenna mætti við „annars konar raunveruleika“.
„Vestræni heimurinn sem við þekktum og kunnum að meta með sín vestrænu gildi er ekki til lengur. Það eru engin gildi, það er enginn vestrænn heimur. Eftir standa einræðislegar stjórnir í skjóli þjóðfána,“ sagði hún.
Tilgangurinn með því að haldið er úti fjölmiðlum í skjóli Kremlverja er að sýna að vestræn gildi séu úr sögunni. Simonjan segir að frjálslynt lýðræði með þrískiptu ríkisvaldi og kosningum hafi orðið að víkja fyrir einræðislegu ríki sem stjórnist af gildum eins og ættjarðarást.
David Alandete, blaðamaður við El País á Spáni, segir að fjölmiðlamenn Kremlar hafi óbilandi trú á rafrænum miðlum í viðleitni sinni við að grafa undan Vesturlöndum. Það sé enginn munur á milli sjónvarpsrása eins og RT sem höfði til sárafárra áhorfenda og fréttastofa. Markmiðið sé að breiða út og halda fram boðskap sem lýsir sundurlimun nútíma evrópsks ríkis og flytja hann til tveggja meginhópa: rússneskra borgara og róttækra vinstri- og hægrisinnaðra hópa í löndum þar sem sjá má útsendingar fjölmiðla Kremlar.
Fyrsta skrefið sé að finna svokallaða heimildarmenn: sérfæðinga sem engum alvarlegum vestrænum fjölmiðli dytti í hug að nálgast. Til þessara sérfræðinga er leitað svo að þeir gefi djarfar, róttækar og áhrifamiklar yfirlýsingar sem beint eða óbeint falla að hagsmunum Kremlverja. David Alandete nefnir nokkur dæmi:
William Mallinson, fræðimaður við ítalska netháskólann Guglielmo Marconi, var þriðji og settur annar ritari í breskum sendiráðum, meðal annars í Nairobi. Mallinson er venjulega kynntur sem fyrrverandi starfsmaður bresku utanríkisþjónustunnar og með vísan til hans getur RT notað fyrirsagnir eins og: Hvers vegna varpar NATO ekki sprengjum á Madrid í 78 daga? og Bandarísk viðvörun til Rússa er ófagmannleg, ógnandi, taktlaus og ódiplómatísk.
Craig Murray, sendiherra Breta í Uzbekistan frá 2002 til 2004. Honum var vikið úr embætti vegna gruns um brot í starfi og á nú náið samstarf við Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Vegna ummæla hans birtast fyrirsagnir eins og þessi: Tölvubréfum demókrata var lekið af „fyrirlitlegum“ uppljóstrurum ekki rússneskum tölvuþrjótum.
John Wight lýsir sjálfum sér sem rithöfundi sem hafi leikið aukahlutverk í Hollywood og verið dyravörður í næturklúbbi. RT og Sputnik lýsa honum sem stjórnmálaskýranda og gefa honum nægilega vigt til að nota fyrirsagnir eins og: Skriðdrekar á götum Barcelona: Spánn og Katalónía á barmi ofbeldis – á fréttir sem eru reistar á skoðunum hans.
Fyrir utan að birta fréttir af þessu tagi á vefsíðum RT og Sputnik eru þær settar inn á samfélagsmiðla. Má til dæmis nefna sérkennilega frétt undir fyrirsögninni: Nýja kortið af Evrópu – þeir sem styðja sjálfstæði Katalóníu. Með fréttinni birtist kort af ESB-ríkjum sem eru sögð styðja nýtt ríki í eigin hópi. Innan nokkurra klukkustunda hafði hún fengið meira en 5.000 birtingar á Facebook. Þetta á venjulega við um efni sem dreift gegn greiðslu – RT er aðeins bannað að kaupa auglýsingar á Twitter – eða notaðir eru bottar – sjálfvirkir reikningar sem dreifa því sem sett er inn á Facebook til að það birtist hjá sem flestum.
RT og Sputnik ná til 100 landa og birta efni á 30 tungumálum. Bloomberg-fréttastofan segir að RT hafi 300 milljónir dollara (rúmlega 30 milljarða ísl. kr.) til ráðstöfunar á ári.
Þessir fjölmiðlar hafa komið til sögunnar á undanförnum áratug. RT fór af stað sem sjónvarpsstöð árið 2015. Flestir ná stöðinni á rafrænan hátt. Á þeim stöðum þar sem aðeins er unnt að nota hefðbundið útvarp er hlustunin yfirleitt um 0,1% af markaðnum.
Sputnik var stofnuð árið 2014 þegar Kremlverjar lokuðu RIA Novosti-fréttastofunni sem naut almenns trausts fyrir haldbærar fréttir. Í stað hennar kom Rossija Segodnja sem fer með yfirstjórn Sputnik. Stofnandinn Dimitri Kiseljov lýsir hlutverki stöðvarinnar á þann veg að þar sé „talað þegar aðrir þegi“.
Eitt dæmi sem lýsir hvernig Sputnik talar þegar aðrir þegja eru dylgjur um að Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sé samkynhneigður: hann hefur sjálfur borið það til baka. Aðferðin sem Sputnik beitti er dæmigerð og nú alræmd, notað var viðtal við öfgahægrisinnaðan franskan þingmann, Nicolas Dhuicq, til að koma orðróminum á kreik. Í viðtalinu sem birtist í febrúar 2017 sagði Dhuicq að Macron nyti stuðnings „kaupsýslumannsins Pierres Bergés, viðskiptafélaga og ástmanns Yves Saints Laurents sem er opinberlega samkynhneigður, talsmaður hjónabands samkynhneigðra. Það er öflugur stuðningsmannahópur samkynhneigðra að baki honum [Macron]“.
Sputnik bætti við að það væri „sterkur orðrómur um samkynhneigð Macrons“.
Markmiðið var að virkja kjósendur lengst til hægri gegn forsetaframbjóðandanum í kosningabaráttunni. Macron svaraði með að banna fulltrúum RT og Sputnik að sækja kosningafundi sína. Hann sagði síðar við Vladimir Pútín Rússlandsforseta þegar þeir hittust í Versölum að þessir miðlar flyttu falsfréttir. Rússar brugðust við á gamalkunnan hátt: með kaldhæðni.
Heimild: El País